Kristján H. Magnússon: Þingvellir, 1933.
Kristján H. Magnússon: Þingvellir, 1933.
Í DAG eru 100 ár liðin frá fæðingu ísfirska listmálarans Kristjáns H. Magnússonar.

Í DAG eru 100 ár liðin frá fæðingu ísfirska listmálarans Kristjáns H. Magnússonar. Af þessu tilefni tel ég fulla ástæðu til að heiðra minningu hans með nokkrum ummælum virtra erlendra listfræðinga um málverk hans og einnig innlend skrif þar sem í einu tilfelli var meinfýsni efst á blaði.

Hæfileikar Kristjáns í teikningu komu snemma í ljós. Atvikin höguðu því svo að skyldmenni hans í Boston buðust til að kosta nám hans vestra. Fram að þeim tíma höfðu allir íslenskir listmálarar menntast í Danmörku eða á Norðurlöndum ýmsir með viðkomu í París eða Þýskalandi.

Ég vitna fyrst í grein eftir Rúnar Helga Vignisson rithöfund og Jón Sigurpálsson, safnstjóra og myndlistarmann á Ísafirði.

"Kristján hóf fljótlega listnám við Massachusetts School of Art og útskrifaðist að fimm árum liðnum við góðan orðstír árið 1926. Björn Th. Björnsson segir frá því í "Íslenskri myndlist" að ein mynda hans hafi verið "talin bezta myndin við prófið og varð það til þess að þjóðsýning Bandaríkjanna (National Academy) í New York veitti honum eftirtekt og valdi mynd eftir hann á sýningu sína 1927 - Still life - og tók ameríska listfélagið (American Federation of Art) síðan þá mynd á ferðasýningu sína. Fór sú sýning um Bandaríkin þver og endilöng." Upp úr þessu "valdi ráðunautur Bandaríkjanna í fögrum listum" Kristján sér til aðstoðar, hvað sem í því fólst, en þess er getið að hann hafi sýnt það ár og selt mikið af myndum. Fyrstu einkasýningu sína hélt Kristján í Copley Gallery í Boston 1927 og í sýningarskrá, sem gerð var vegna minningarsýningar í Listamannaskálanum 1952 segir að listgagnrýnendur hafi þá þegar spáð "hinum unga listamanni glæsilegrar framtíðar" og litasafnið í borginni keypti eitt málverkanna.

Hæfileikalaus á Íslandi!

Snemma árs 1929 heldur Kristján til Íslands, giftist árið eftir lífsförunaut sínum Klöru Helgadóttur. Kristján ferðaðist víða um land og málaði af kappi. Hann var einnig ötull að sýna, frá vori og fram á haust 1930 hélt hann tvær einkasýningar í Reykjavík, eina á Ísafirði og eina í Lundúnum og átti auk þess stóran hlut í Landakotssýningunni í Reykjavík.

Sýningin í Lundúnum fékk prýðilega dóma, eins og a.m.k. tvö íslensku dagblaðanna greindu frá. Í Vísi hinn 10. okt. 1930 er haft eftir listdómara "The Morning Post" að "Kristján Magnússon sýni frábæra leikni í meðferð lita og í myndunum speglist ýmist veðrátta landsins eða skapbrigði málarans." Alþýðublaðið hefur eftir "The Times" 7. okt. "List Kristjáns er ákveðin, skýr og einföld og spennir yfir vítt svið. Efnisval og meðferð lita er hvorttveggja hið ákjósanlegasta."

Ennfremur segir Alþýðublaðið: "Það er óalgengt að íslenskir listamenn leiti sér menntunar í Vesturheimi, enda munu ýmsir hér vera allvantrúaðir á listræna menning Ameríkumanna. Hvað sem um það er ber þó að gæta þess að á síðustu árum hefir mikill fjöldi fágaðra listamanna flykst frá Evrópu vestur um haf og mörg merkustu listaverk gömul og ný hafa farið sömu leið."

Árið 1932 var valið úr verkum íslenskra listamanna til sýningar í Stokkhólmi. Þar var Kristján sniðgenginn með öllu. Ekki vildi hann una því og tók á leigu sal skammt frá hinum opinbera sýningarstað "og trónaði þar einn í særðu stolti" eins og Björn Th. Björnsson kemst að orði í "Íslenskri myndlist". Sýningu Kristjáns var ágætlega tekið og einn gagnrýnendanna í Stokkhólmi velti fyrir sér af hverju hann hefði ekki verið með á yfirlitssýningunni.

Þegar frá eru taldar tvær minningarsýningar síðast í Listamannaskálanum í Reykjavík 1953, ríkti grafarþögn um Kristján H. Magnússon áratugum saman. Það var ekki fyrr en Listasafn Ísafjarðar hélt yfirlitssýningu á verkum hans 1986 að farið var að skoða stöðu hans í íslenskri myndlist á ný.

Framangreind skrif eru kaflar úr samantekt Rúnars Helga og Jóns Sigurpálssonar.

Við sem tengdumst fjölskylduböndum við eiginkonu Kristjáns, Klöru Helgadóttur, sem ávallt skrifaði sig Magnússon eftir giftingu, eignuðumst nokkur falleg málverk eftir Kristján og er sérstök ástæða til að bera lof á vetrarmyndir hans, sem ávallt hafa verið taldar bæði glæsilegar og sérstæðar.

Fyrir ca tveim árum gengum við á fund forstöðumanns Listasafns Íslands og afhentum honum ljósrit af ýmsum blaðagreinum um Kristján. Hann var bæði kurteis og þægilegur viðmælandi. Við fórum þess á leit hvort hann gæti einhverntíma í framtíðinni gefið kost á sýningu t.d. í litla salnum á fyrstu hæð. Hann kvaðst myndi hugleiða það síðar. Hann var fullkomlega meðvitaður um mótbyr Kristjáns hér heima. Mörgum mánuðum síðar höfðum við símasamband við hann og tjáði hann okkur að óþarfi væri að ónáða hann frekar í þessu sambandi. Nú mánuðirnir verða að árum og 100 árum eftir fæðingu Kristjáns er enn tíðindalaust frá tjarnar-"vígstöðvunum".

Ísfirðingar eiga mikinn heiður skilinn fyrir sinn ómetanlega stuðning við minningu Kristjáns H. Magnússonar.

Að lokum langar mig að minnast á sýningar í Lundúnum 1930 og árið eftir hélt hann aftur sýningu sem seldist upp og fékk frábæra dóma. Þá skeði sá einstæði atburður að breskur auðmaður bauð Kristjáni að dvelja hjá sér í Lundey og mála þar fyrir sig.

Kristján fór síðan ásamt Klöru eiginkonu sinni til Lundeyjar og sagði hún að dvölin þar hefði verið ævintýri líkust. Þau dvöldu þar í 2 mánuði, sem voru sannkallaðir dýrðardagar.

Það er með ólíkindum að listmálari, sem fær frábæra dóma í Ameríku, Skandinavíu og Englandi skuli iðulega hafa verið ofsóttur af Orra Morgunblaðsins, sem reyndar var keppinautur hans í listmálun.

Skyldu aðrir íslenskir listmálarar hafa leikið eftir honum að halda sýningar í "The Fine Art Society" og selja allar myndir, sem þar voru sýndar?

Þegar Kristján H. Magnússon lést árið 1937 aðeins 34 ára gamall, þá var hann nýkominn úr málunarferð um uppsveitir Borgarfjarðar á hestbaki.

Þegar framangreindir listdómar á erlendri grund eru hafðir í huga og einnig mikil velgengni í sölu málverka heima og erlendis undrast maður yfir þeirri grafarþögn sem ríkir enn yfir minningu þessa sérstæða myndlistarmanns nú þegar 100 ár eru liðin frá fæðingu hans.

Eftir Guðmund Guðmundarson

Höfundur er framkvæmdastjóri, ellilífeyrisþegi.