"Því er algjörlega vísað á bug, að prestar Dómkirkjunnar flokki fólk eftir því hvernig þeim líki málstaður þess eða bænarefni."

SÆLL og blessaður, Davíð Þór.

Margt drífur á dagana. Nú er ég sakaður um að loka kirkjunni fyrir fólki sem þangað vill leita. Þú veist að það er ekki rétt en nauðsynlegt er að skýra málið vegna bréfs þíns til mín í Morgunblaðinu 9. mars sl.

Beðið var um að athöfn í Dómkirkjunni yrði þáttur í auglýstum mótmælaaðgerðum gegn virkjunarframkvæmdum í landinu. Ekki var beðið um prestsþjónustu, aðeins að fá kirkjuna lánaða af þessu tilefni. Þessari beiðni var hafnað. Bent var á að úrskurði þessum mætti skjóta til biskups.

Mótmæli við Alþingishúsið og á Austurvelli eru tíð og óvíst hvar það myndi enda ef allir hópar mótmælenda vildu fá aðstöðu í Dómkirkjunni í tengslum við aðgerðir sínar. Þess vegna er beðist undan því að kirkjunni sé blandað inn í slíkt. Nú má vel vera að í þessu umrædda tilfelli hefði verið hægt að gera betur. Með samræðum við "mótmælendur" hefði e.t.v. verið hægt að finna leiðir sem allir gætu vel við unað. Það höfum við vissulega hugleitt og rætt undanfarna daga og munum fara rækilega yfir það í okkar hóp.

Hinu er algjörlega vísað á bug að prestar Dómkirkjunnar flokki fólk eftir því hvernig þeim líki málstaður þess eða bænarefni. Kirkjan er öllum opin. Þjónar hennar veita öllum kirkjulega þjónustu. Þeir spyrja ekki um trúarskoðanir eða trúfélagsaðild. Svo hefur ekki verið - og það stendur ekki til. Það gildir um alla Þjóðkirkjuna.

Ég er ekki þjónn kirkju til að loka dyrum á fólk heldur til að opna þær betur og gera fólki það auðveldara að koma þangað, finna að það sé þangað hjartanlega velkomið, hafi þangað sitthvað að sækja og fram að leggja með þátttöku sinni.

Fólk með ólíkar skoðanir situr að sjálfsögðu saman á kirkjubekkjum Dómkirkjunnar. Það er frekar að það kvarti undan kirkjubekkjunum en hvert öðru. En þrátt fyrir það að margt megi finna að Dómkirkjunni og þá ekki síður prestunum, organistanum og öllum hinum þá er þetta gott samfélag. Við sem þar störfum höfum ólíkar skoðanir á ýmsum efnum. En okkur líður yfirleitt nokkuð vel og fellur vel þetta samfélag. Til þessa samfélags eru allir velkomnir hvort sem er með gleði eða sorgir lífs síns, áhyggjur sínar eða baráttumál, þakkir sínar, vonir og væntingar. Ekkert okkar er fullkomið en vilji okkar stendur allur til þess að hafa kærleika Krists sem stefnumið okkar og inntak í störfum okkar.

Eftir Hjálmar Jónsson

Höfundur er dómkirkjuprestur.