Casablanca, kvikmynd frá 1942, er einhver mest umtalaða mynd sem framleidd hefur verið. Aðalhlutverk í henni léku Humphrey Bogart og Ingrid Bergman.

Casablanca, kvikmynd frá 1942, er einhver mest umtalaða mynd sem framleidd hefur verið. Aðalhlutverk í henni léku Humphrey Bogart og Ingrid Bergman.

Veggspjald sem búið var til sem auglýsing fyrir myndina er nú orðið mjög eftirsótt í frumgerð og selst dýrum dómum á uppboðum í útlöndum. En auðvitað er hægt að fá eftirlíkingar og hengja upp á vegg hjá sér, enda er það óspart gert.

Casablanca er hafnarborg við Atlantshaf í NV-Marokkó og var stofnuð 1515 af Portúgölum. Hún er nú mjög nútímaleg en í henni eru gömul hverfi sem eru vinsæl af ferðamönnum.

Casablanca er enn í dag mikilvæg hafnar-, verslunar- og iðnaðarborg. Til Casablanca hópuðust vegabréfslausir útlagar í seinni heimstyrjöldinni í von um að komast þaðan til Bandaríkjanna - sem sumum tókst en öðrum ekki.

Bogart fæddist 1899 og dó 1957. Hann er sennilega ein af allra "endingarbestu" stjörnum Hollywood, enda einn mesti "töffari" kvikmyndasögunnar. Ingrid Bergman var sænsk, fæddist 1915 og dó 1982.

Hún var mjög fræg leikkona og virtist til þess fædd að leika harmsögulegar og hundeltar kvenhetjur, var enda sjálf mikið á milli tannanna á illkvittnu fólki í kjölfar umtalaðs skilnaðar við sænskan tannlækni. Casablanca er sennilega ein frægasta mynd þessara beggja stórleikara.