Kristján Ottósson
Kristján Ottósson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ráðstefna um úttekt á lokafrágangi lagnakerfa verður senn haldin. Framkvæmdastjóri Lagnakerfamiðstöðvar Íslands, Kristján Ottósson, fjallar hér um það sem fram fer þar.

Við þekkjum flest okkar þær kvartanir sem á okkur dynja yfir því að lagnakerfið í húsinu okkar eða á vinnustað okkar, vinni ekki eins og húseigandinn og/eða starfsfólkið hélt að það ætti að gera. Kerfið uppfyllir ekki væntingar fólksins.

Hversvegna ekki?

Myndir þú ganga 15 km til Hafnarfjarðar til að sækja eina milljón króna (vegna vinnulauna þinna), ef þú getur fengið sömu milljónina (án þess að vinna fyrir henni) í húsi sem er í 50 metra fjarlægð þaðan sem þú býrð?

Nú spyr einhver hvað er maðurinn að fara?

Það sem ég meina, af hverju ætti hönnuður og/eða iðnaðarmaður að leggja út í alla þá kostnaðarsömu vinnu sem þarf til að stilla kerfin, prófa samvirkni tækja og skrifa handbók, ef þeir komast hjá því (fá samt greitt að fullu) vegna þess að eftirlitið er gagnslaust og úttekt á lokafrágangi lagnakerfa af hlutlausum aðila er ekki til. Það er þess vegna sem þeir þurfa ekki að fara lengri leiðina til að sækja greiðsluna fyrir vinnuna sína. Oft á tíðum er ekki skilið eftir svo mikið sem nafn eða sími um þann sem síðastur gekk frá kerfinu.

Hver ber skaðann, húseigandinn og þeir sem áttu að njóta vellíðunar af lagnakerfunum.

Kerfin eru sett saman úr mörgum hlutum, sem geta skipt hundruðum, allir hlutirnir verða að vinna saman.

Farðu út í búð og kauptu þér handsnúinn rjómaþeytara, í pakkanum hjá þeytaranum er stórt blað með lesningu um það hvernig þú átt að nota handsnúinn rjómaþeytara.

Lagnakerfið í húsið þitt getur kostað á bilinu frá kr. fimmhundruð þúsund og upp í fimmtán milljónir og þú færð engar upplýsingar, ekki minnismiða í hendurnar um það hvernig þú átt að nota kerfið.

Er þetta virkilega satt?

Skoðaðu þetta bara heima hjá þér.

Lagnafélag Íslands í samvinnu við Samband Íslenskra sveitarfélaga, Framkvæmdasýslu ríkisins og Lagnakerfamiðstöð Íslands, stendur fyrir ráðstefnu um úttekt á lokafrágangi lagnakerfa, sem verður haldin, fimmtudaginn 20. mars 2003, í Lagnakerfamiðstöð Íslands, Keldnaholti. Ráðstefnan sett stundvíslega kl. 13.00.

Hver framsögumaður hefur 15 mínútur fyrir framsögu, og 5 mínútur fyrir fyrirspurnir úr sal.

Á ráðstefnunni ræða framsögumenn um vandamálin sem minnst er á hér að framan og reynt verður að svara spurningum sem koma hér.

Er eftirlit með verki hönnuða?

Höfum við verið að valda húseiganda tjóni með ófullnægjandi frágangi lagnakerfa?

Hver er tilgangur og markmiðið með úttekt á lokafrágangi lagnakerfa?

Hvað fær húseigandi í hendur til staðfestingar á því að lagnakerfi sé fullbúið?

Eru til verklagsreglur um það hvernig úttekt á lokafrágangi lagnakerfa eigi að fara fram?

Erum við að valda tjóni á byggingum í dag, með því að nota efni sem ekki eru vottuð samkvæmt byggingarreglugerð?

Hvað er handbók lagnakerfa og hvernig á hún að vera byggð upp?

Er það rétt sem heyrst hefur, að engin bygging yrði byggð á Íslandi ef fara ætti eftir byggingarreglugerð?

Ráðstefnuna ávarpar umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir.

Framsögumenn verða:

Dagbjartur Guðmundsson, verkfræðingur, Framkvæmdasýslu ríkisins.

Einar H. Jónsson, tæknifræðingur, Umhverfis- og Fasteignastofu Reykjavíkurborgar

Benedikt Jónsson, verkfr. vottunarstjóri Rannsóknarstofnun, byggingariðnaðarins.

Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri umhverfisráðuneytinu

Þórður Ólafur Búason, yfirverkfræðingur Byggingarfulltrúans í Reykjavík.

Friðrik S. Kristinsson, tæknifræðingur, Lagnatækni ehf. hönnun- og ráðgjöf.

Kristján Ottósson, framkvæmdastjóri Lagnakerfamiðstöðvar Íslands.

Sveinn Áki Sverrisson, tæknifræðingur, VSB verkfræðistofa.

Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri, Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Að loknum framsögum verða með ráðstefnugestum myndaðir þrír vinnuhópar, sem munu gefa út niðurstöður fyrir lok ráðstefnunnar frá hverjum hópi fyrir sig

Ráðstefnuslit er kl.18.00. Ráðstefnugjald kr. 3.000, kaffi og meðlæti innifalið.

Ráðstefnan er öllum opin. Sjá vefsíðu www.lafi.is