REYKJANESBÆR hefur um nokkurt skeið unnið að innleiðingu á stefnu í málefnum innflytjenda. Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri segir að þörf hafi verið á að marka sér stefnu í þessum málaflokki um nokkurt skeið.

REYKJANESBÆR hefur um nokkurt skeið unnið að innleiðingu á stefnu í málefnum innflytjenda. Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri segir að þörf hafi verið á að marka sér stefnu í þessum málaflokki um nokkurt skeið. Hún segir að markmiðið sé að koma betur til móts við flóttamenn, ekki síst á þeirra forsendum.

Hún bendir á að margir einstaklingar sem hingað komi hafi góða menntun sem ekki nýtist alltaf sem skyldi. "Þá myndum við vilja að reynt yrði að huga betur að þessum þætti þannig að það verði báðum til góðs," segir hún.

Hún segir stefnt að því að koma stefnu í málefnum innflytjenda í gagnið sem fyrst, eða um leið og bæjarstjórn hefur afgreitt málið. Félagsmálayfirvöld hafa óskað eftir því að fá að ráða verkefnisstjóra til að fylgja stefnunni eftir. Hjördís segir hins vegar að ekki liggi fyrir hvort heimild fáist fyrir ráðningunni.

Unnið gegn fordómum meðal bæjarstarfsmanna

Í greinargerð með kostnaðarmati á innleiðingu innflytjendastefnu sem lögð var fyrir bæjarráð í síðustu viku segir að vinna skuli markvisst gegn fordómum meðal starfsmanna bæjarins. Sérstaka áherslu þurfi að leggja á fyrirbyggjandi starf, fræðslu um fordóma og fjölmenningarlega kennslu innan uppeldisstofnana. Í þessu sambandi er m.a. ráðgert að halda fræðslufundi fyrir uppeldisstarfsmenn grunn- og leikskóla og efna til ráðstefnu gegn fordómum fyrir almenning.

Þá segir í greinargerðinni að lagt skuli upp með að innflytjendur þekki rétt sinn og skyldur og að allar nauðsynlegar upplýsingar sem þeir þurfi á að halda um réttindi og skyldur verði aðgengilegar á einum stað.