[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞESSI ónafngreinda stúlka í Skotlandi með orðið "friður" ritað á ennið og friðarmerki á kinninni var meðal um eitt hundrað skólabarna sem komu saman í Edinborg í gær til að mótmæla yfirvofandi herför á hendur Írökum.

ÞESSI ónafngreinda stúlka í Skotlandi með orðið "friður" ritað á ennið og friðarmerki á kinninni var meðal um eitt hundrað skólabarna sem komu saman í Edinborg í gær til að mótmæla yfirvofandi herför á hendur Írökum.

Stríð mikil mistök

VLADIMIR Pútín Rússlandsforseti skar í gær formlega á öll tengsl Rússa við yfirvofandi árás á Írak. Sagði Pútín að herför "yrði mistök sem myndi hafa hinar alvarlegustu afleiðingar og leiða til óstöðugleika í heiminum öllum". Ígor Ívanov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði að Bandaríkjamenn hefðu engan lagalegan grundvöll til að fara út í slíkt stríð.

Segir stríðið löglegt

LÖGFRÆÐIRÁÐGJAFI bresku ríkisstjórnarinnar, Peter Goldsmith lávarður, sagði í yfirlýsingu í gær að stríð gegn Írak ætti sér lagalegan grunn í röð ályktana Sameinuðu þjóðanna aftur til ársins 1990. Heimiluðu þær "beitingu valds í því tiltekna skyni að koma aftur á friði og öryggi í heiminum". Í ályktun öryggisráðsins númer 1441, sem samþykkt var í nóvember í fyrra, væri kveðið á um að ráðið fengi tilkynningar um óhlýðni Íraka og ræddi hana, en ekki um að frekari ákvarðana væri þörf um heimild til vopnabeitingar.

Kínverjar vongóðir

LI Zhaoxing, utanríkisráðherra Kína, hvatti í gær utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Bretlands til að leysa Íraksdeiluna með friðsamlegum hætti. Lét hann í ljósi þá von, að friðsamleg lausn fyndist.

Áttu gereyðingarvopn

SADDAM Hussein Íraksforseti sagði í gær að Írakar hefðu átt gereyðingarvopn í því skyni að verjast Írönum og Ísraelum, en ættu þau ekki lengur, að því er opinber fréttastofa Íraks greindi frá. Hefði þetta komið fram í viðræðum Saddams við sendimann Túnis.

Búnir efnavopnum

BANDARÍKJAMENN segjast hafa undir höndum upplýsingar um að sumum meðlimum sérsveita íraska hersins, er hafa það hlutverk að verja höfuðborgina Bagdad fyrir innrásarherjum, hafi verið úthlutað efnavopnum. Sé þetta í fyrsta sinn sem upplýsingar berist um að hermenn fái slík vopn í hendur.