Cook á  breska þinginu í gærkvöld.
Cook á breska þinginu í gærkvöld.
ROBIN Cook, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, sagði af sér í gær sem leiðtogi stjórnarinnar í neðri deild breska þingsins til að mótmæla þeirri stefnu hennar að hefja hernað í Írak án stuðnings öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða bresku...

ROBIN Cook, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, sagði af sér í gær sem leiðtogi stjórnarinnar í neðri deild breska þingsins til að mótmæla þeirri stefnu hennar að hefja hernað í Írak án stuðnings öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða bresku þjóðarinnar. Gerði hann grein fyrir ákvörðun sinni í neðri deildinni í gærkvöld.

Í ræðu sinni sagði Cook, að herstyrkur Íraka væri nú helmingi minni en hann hefði verið á tímum síðasta Persaflóastríðs. Með það í huga væri undarlegt að halda því fram, að mikil hætta stafaði af stjórnvöldum í Írak, hvað þá, að hún réttlætti hernaðaraðgerðir. Kom þetta fram á fréttavef BBC, breska ríkisútvarpsins, í gær.

Efast um að Írakar eigi gereyðingarvopn

Cook sagði ennfremur, að Írakar réðu ekki yfir gereyðingarvopnum í þeim skilningi, að af þeim stafaði raunveruleg hætta, það er að segja, að þeir hefðu til dæmis bolmagn til beita þeim gegn borgum. Þá lýsti hann furðu sinni á því, að Bandaríkjastjórn virtist hafa meiri áhuga á stjórnarskiptum í landinu en raunverulegri afvopnun.

"Það, sem hefur valdið mér nokkru hugarangri á síðustu vikum, er sá grunur, að hefðu fliparnir á kjörseðlunum í Flórída verið túlkaðir með öðrum hætti og Al Gore náð kjöri í forsetakosningunum, þá værum við ekki nú að búa breska hermenn út í stríð," sagði Cook.

Cook kvaðst einnig hafa furðað sig á því, að þeir, sem hefðu barist mest fyrir hernaði í Írak, skyldu ekki hafa fagnað fréttum um vaxandi árangur af starfi vopnaeftirlitsmanna í landinu. Því hefði raunar verið alveg öfugt farið og hann spurði hvað það væri, sem ræki á eftir stríði nú, helst í þessari viku. Þá sagði hann, að því færi fjarri, að Frakkar væru einir um að vilja gefa vopnaeftirlitinu meiri tíma. Þvert á móti væri það krafa flestra ríkja.

Afsögn Cooks er áfall fyrir Tony Blair forsætisáðherra enda má nú kalla Cook ókrýndan leiðtoga þeirra þingmanna Verkamannaflokksins, sem eru andvígir hernaðaraðgerðum í Írak.