Matthías Birgir Nardeau óbóleikari.
Matthías Birgir Nardeau óbóleikari.
MATTHÍAS Birgir Nardeau óbóleikari og Snorri Sigfús Birgisson píanóleikari halda tónleika á vegum Tónlistarskólans í Reykjavík í Salnum í kvöld kl. 20.00.

MATTHÍAS Birgir Nardeau óbóleikari og Snorri Sigfús Birgisson píanóleikari halda tónleika á vegum Tónlistarskólans í Reykjavík í Salnum í kvöld kl. 20.00. Tónleikarnir eru seinni hluti einleikaraprófs Matthíasar Birgis Nardeau frá skólanum, en hann lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrri hluta einleikaraprófsins fyrir skömmu.

"Þeir tónleikar gengu rosalega vel, og þetta var gífurleg reynsla fyrir mig, að spila með Sinfóníuhljómsveitinni," segir Matthías Birgir um fyrri hluta lokaprófsins. "Þetta var reynsla fyrir lífið, og maður sér hlutina svolítið í öðru samhengi eftir á. Upplifunin var svolítið öðruvísi en ég bjóst við. Það var skrýtið, því ég reyndi að undirbúa mig þannig að sem minnst kæmi á óvart. En ég fór inn í eitthvert ferli á tónleikunum sjálfum, sem er skrýtið að rifja upp eftir á. Þegar ég var nýbúinn að spila og var að ganga niður tröppurnar baksviðs skildi ég ekki alveg að þetta hefði gerst."

Á einleikstónleikunum í kvöld leikur Matthías Birgir verk sem hann valdi í samvinnu við kennara sinn, Kristján Stephensen. "Niðurstaðan varð sú að það væri mikilvægast að spila skemmtilegustu og bestu verkin frá hverju tímabili, - þau verk sem manni þykir vænst um, og þá fór ég á stúfana og valdi þau verk sem mér þykir skemmtilegust. Þetta eru Sónata eftir Händel, salonverk eftir rómantískt tónskáld, Tékka, sem heitir Johann Kalliwoda, - gaman að vera með eitthvað sem færri þekkja. Svo spila ég í Óbókvartett Mozarts sem er mjög frægur. Eftir hlé frumflyt ég verk eftir Snorra Sigfús Birgisson móðurbróður minn, sem er líka píanistinn minn á tónleikunum, og enda svo á Sónötu eftir Henri Dutilleux."

Verk Snorra Sigfúsar er samið sérstaklega fyrir Matthías Birgi í tilefni af lokaprófinu og segir Matthías frábært að geta frumflutt nýtt verk á tónleikunum. Hann segir að það hafi verið mikið álag að spila með Sinfóníuhljómsveitinni en þessir tónleikar verði meira eins og hátíð. "Maður er að kveðja kennarann sinn og umhverfi sitt, og þetta verður vonandi svolítið eins og kvöldið mitt, meira en hinir tónleikarnir. Þó er þetta líka erfitt, af því að maður stendur einn, fólk kemur að hlusta, og maður verður að sjá til þess að þetta gangi upp. Það er erfitt að koma orðum að því, - en ég held að fyrir mig verði þessir tónleikar allt öðruvísi."

Sem fyrr segir leikur Snorri Sigfús með Matthíasi í nokkrum verkanna, en með honum í Óbókvartett Mozarts leika samnemendur úr Tónlistarskólanum í Reykjavík.