Marta Guðrún Halldórsdóttir
Marta Guðrún Halldórsdóttir
Flutt var gömul og nýleg tónlist fyrir blokkflautur, lútur og söngrödd. Flytjendur voru Marta Guðrún Halldórsdóttir, Camilla Söderberg og Snorri Örn Snorrason. Sunnudaginn 16. mars.

ÆTLA mætti að miklar andstæður væri að finna í kammertónlist frá 17. öld og þeirri sem samin var um miðja tuttugustu öldina. Á tónleikunum í Hafnarborg sl. sunnudagskvöld gat að heyra leikið á ýmsar gerðir af blokkflautum og einnig lútur og þótt nokkuð hafi verið gert af því að kynna þessi hljóðfæri eru þau tónleikagestum enn töluverð nýjung, að ekki sé talað um tónlistina.

Tónleikarnir hófust á Tanzen und springen eftir Hassler, sem Marta Guðrún söng af þokka, og þar næst komu tvö lög, eftir ókunna höfunda, skemmtilega leikin á blokkflautur og lútu. Fontana átti næsta lag, Madonna mia, pietá, og Marta Guðrún söng síðan Blíðskapur frá mér flýði, sérkennilegt lag eftir van Eyck, og voru þessi lög frá 16. og 17. öld sérlega fallega sungin. Þrjú lög eftir ókunna höfunda voru mjög vel flutt af Camillu og Snorra Erni. Á milli atriða flutti Aðalsteinn Ingólfsson nokkrar náttúrustemmningar, eftir ýmis íslensk ljóðskáld, sem hann telur að falli vel að myndasýningu Louisu Matthíasdóttur, sem stendur yfir þessa dagana í Hafnarborg. Síðustu lögin fyrir hlé sem Marta Guðrún söng voru fimm þjóðlagaútsetningar eftir Benjamin Britten. Ekki er þess getið hvort um er að ræða umritanir, en Britten raddsetti nokkur bresk þjóðlög fyrir söng með píanóundirleik og einnig fyrir hörpu og píanó. Þessar fallegu útsetningar voru sérlega vel fluttar af Mörtu Guðrúnu en einnig var leikur Snorra einstaklega lifandi og fallega mótaður.

Eftir hlé var tvíleikur á blokkflautur og lútu í verki frá tilraunatímabilinu 1950 til 70, eftir þýska blokkflautuleikarann og hljómsveitarstjórann Hans-Martin Linde (f. 1930), en hann gaf út stuttar leiðbeiningar um skreytingar á gamalli tónlist (1958) og handbók í blokkflautuleik (1962). Þetta var skemmtilegt verk, sérstaklega annar þátturinn, Duetto, en í þeim þriðja, Cadenze, var nokkuð lagt í lútuleikinn, sem Snorri lék mjög vel. Síðasti kaflinn, Sernata, var með tilvitnunum í Kaspar Fürstenau (1772-1819), þýskan flautuleikara, en fjölskylda hans var fræg fyrir flautuleik og afkomendur hans störfuðu m.a. í Dresden með Weber og til er frásögn af tónlistarlífinu þar í borg eftir Moritz Fürstenau (1824-89).

Sequneza, mjög frægt sönghljóðatilraunaverk (1966) eftir Luciano Berio, var listilega vel flutt af Mörtu Guðrúnu. Tveir söngvar eftir ókunn tónskáld komu næst og síðasta verkið var kantatan Er é pur dunque vero eftir Monteverdi, samin 1632. Samkvæmt tímanum er hér um að ræða einsöngsverk með "ritornello"-hljóðfæraþáttum, hér leiknum á blokkflautu, en undirleikur söngsins var framinn á lútu.

Flutningurinn í heild var frábærlega vel útfærður og stílviss. Marta Guðrún Halldórsdóttir söng öll verkin mjög vel og afburða vel Sequensuna eftir Berio, sem ekki er allra að leika sér að, eins og Marta Guðrún gerði með eftirminnilegum hætti.

Jón Ásgeirsson