Breskir herliðar staðsettir í Kúveit gáfu sér meira að segja tíma til að bregða upp rauða nefinu á föstudag í tilefni dagsins.
Breskir herliðar staðsettir í Kúveit gáfu sér meira að segja tíma til að bregða upp rauða nefinu á föstudag í tilefni dagsins.
BRETAR geta verið bestu skinn. Ekki er gott að segja hvort það er sprottið af svíðandi samviskubiti yfir gömlum syndum, eins og t.a.m. yfirgangi gamla heimsveldisins, en þeir eru að minnsta kosti duglegir að gefa þegar þeir taka sig til.

BRETAR geta verið bestu skinn. Ekki er gott að segja hvort það er sprottið af svíðandi samviskubiti yfir gömlum syndum, eins og t.a.m. yfirgangi gamla heimsveldisins, en þeir eru að minnsta kosti duglegir að gefa þegar þeir taka sig til. Löngum hefur góðgerðarstarf verið eins konar hobbí hjá þeim - aðallega yfirstéttarfólkinu þá - og svo er tjallinn almennt öflugur þegar efnt er til styrktarátaks, landssöfnunar.

Á föstudag var staðið fyrir landssöfnun sem hefur verið árlegur viðburður þar í landi í á annan áratug. Samtökin Comic Relief standa fyrir söfnuninni og er dagurinn ýmist kenndur við þau eða höfuðeinkenni dagsins, rauða trúðsnefið. Það voru nokkrir af dáðustu grínistum landsins - Lenny Henry, Noel Edmonds, Griff Rhys Jones og Jonathan Ross m.a. - sem settu samtökin saman 1985 og hafa verið driffjaðrirnar, einkum þó Henry, í þessu söfnunarátaki sem vaxið hefur fiskur um hrygg frá ári til árs. Á þessum 18 árum hafa safnast yfir 220 milljónir punda eða 27 milljarðar króna sem runnið hafa til ýmissa góðgerðarmála, einkum meðal fátækustu þjóða Afríku en þó einnig heima fyrir. Ætíð hefur verið haft að leiðarljósi að ekki sé um ölmusu að ræða heldur fyrst og fremst verið að hjálpa bágstöddum til að hjálpa sér sjálfir.

Efnt hefur verið til rauðnefjadagsins árlega síðan 1988 og hefur hápunktur þess dags ætíð verið myndarleg skemmtidagskrá á sjónvarpsstöðvum BBC allt kvöldið þar sem þátt hafa tekið margir af helstu skemmtikröftum Bretlands; leikarar, grínistar, tónlistarmenn, fjölmiðlamenn, stjórnmálamenn, íþróttamenn o.fl. Yfir 2.000 manns hafa gefið vinnu sína í þágu söfnunarinnar á rauðnefjadeginum og staðið fyrir eftirminnilegum skemmtiatriðum, allt í þágu málstaðarins.

Skemmtidagskráin á föstudaginn, sem BBC Prime sýndi frá að vanda, var hreint bráðskemmtileg, fjölbreytt og smellin. Þar sýndi líka listir sínar rjóminn úr bresku skemmtanalífi, einkum þó grínistarnir, sem fóru á algjörum kostum, inn á milli þess sem dregnar voru upp átakanlegar myndir af eymdinni í Afríku og í Bretlandi, en að þessu sinni var höfuðáhersla lögð á að vekja fólk til umhugsunar um heimilisofbeldi og safna fyrir athvörfum fyrir fórnarlömb þess. Rowan Atkinson og Lenny Henry tóku Martin Bashir og Michael Jackson í bakaríið og enduðu saman í bólinu. Framlag Johns Cleese var meðvituð leiðindi, að hans sögn til að dreifa huga áhorfenda og fá þá til að hringja í styrktarlínuna og leggja sitt af mörkum - karlinn þagði á skjánum í nokkrar mínútur með sinn fræga Fawlty-fýlusvip og húðskammaði svo áhorfendur fyrir að vera of nískir. Hvert grátbroslega atriðið rak annað og Bretinn gaf og gaf. Þegar upp var staðið og útsendingu lauk, þegar vel var liðið á aðfaranótt laugardags, höfðu safnast meira en 35 milljónir punda, eða góðir 4 milljarðar króna, meira en nokkru sinni hefur safnast á einum rauðnefjadegi.

Hér heima er nokkuð reglulega staðið fyrir landssöfnun, oftast með afar góðum árangri. Eftirminnilegast er þegar ljósvakamiðlarnir hafa með einum eða öðrum hætti tekið þátt í átakinu, eins og þegar Lionshreyfingin seldi rauðu fjöðrina og Cosa Nostra söng samnefnt lag í skemmtiþætti í sjónvarpssal. Þá man maður eftir nokkrum skemmtilegum útsendingum á Rás 2 þar sem lög gengu kaupum og sölum og fyrirtækin kepptust um að halda óþolandi lögum sem lengst í spilun. Það væri nú ekki svo vitlaust ef við færum að ráði nágranna okkar og efndum árlega til söfnunarátaks, héldum okkar rauðnefjadag með tilheyrandi skemmtan og sýndum og sönnuðum að okkur þykir líka gaman að gefa.

Skarphéðinn Guðmundsson