ÉG skellti mér í sund í Breiðholtslaug laugardaginn 8. mars sl. með son minn sem er 5 1/2 árs. Þar fær maður ekki læstan klefa heldur lætur fötin í körfu og lætur þau svo í geymslu hjá klefavörðum.

ÉG skellti mér í sund í Breiðholtslaug laugardaginn 8. mars sl. með son minn sem er 51/2 árs. Þar fær maður ekki læstan klefa heldur lætur fötin í körfu og lætur þau svo í geymslu hjá klefavörðum.

Þarna stöndum við, ég og sonur minn, með handklæði utan um okkur þegar önnur konan spyr: Er hann nokkuð orðinn sex ára? Nei, segi ég, en spyr af einskærri forvitni afhverju hún vilji vita það. Þá segir hún að þegar börn séu orðin sex ára eigi þau að fara í klefa með sínu kyni. Semsagt samkvæmt þeirra reglum geta litlir strákar (sama gildir um stelpur) ekki farið með mömmum sínum í klefa þegar þeir eru orðnir sex ára. Ég varð gersamlega kjaftstopp og spurði hvort þær væru ekki að grínast í mér. Nei, þær stóðu sko fast á sínu og sögðu að einhvers staðar þyrfti að draga mörkin.

Ég lét þær vita að sonur minn væri ekki búinn að læra að reima skóna sína og gæti oft ekki rennt upp eða hneppt af sjálfsdáðum. Þá létu þær mig vita að ég ætti bara að láta klefavörð vita þegar barnið væri eitt og honum yrði hjálpað.

Aldrei í lífi mínu myndi ég afhenda sex ára gamlan son minn einhverjum ókunnugum manni sem ætti að aðstoða hann við að klæða sig úr fötunum þó svo að hann væri starfsmaður sundlaugarinnar og svo ekki sé minnst á alla hina sem eru í klefanum, hvað veit ég um þá (hrollur). Einnig finnst mér ábyrgðarleysi að ætlast til þess að barn sem er ósynt (eins og flest eru sex ára gömul) fari eitt út í laug þar sem klefaverðirnir vita ekkert hvort foreldrið er komið út í laug á undan til þess að taka á móti barninu.

Ég bý sjálf í Hafnarfirði og ætla mér að athuga hvort sömu reglur gildi þar en þetta hef ég aldrei heyrt áður. Held að 8-10 ára aldur væri kannski hentugri til þess að framfylgja þessari reglu. Einnig finnst mér þetta ýta undir "tepruskap" og spéhræðslu við hitt kynið allt of snemma á lífsleiðinni.

Þegar við vorum svo komin í sturtuna segir litli drengurinn minn: Mamma, við skulum ekki fara hingað í sund þegar ég er orðinn sex.

Linda Skarphéðinsdóttir.

Saltmengun

UNDANFARIN misseri hefur Velvakandi birt mörg bréf frá lesendum þar sem skorað hefur verið á þá aðila sem stjórna saltdreifingu á götur borgarinnar að upplýsa hvernig þessum málum er stjórnað. Engin svör hafa borist.

Hvaða aðili ákveður eða metur hvort nauðsynlegt sé að salta? Eftir hverju fer sá aðili í ákvörðun sinni? Hve miklu salti er dreift á götur Reykjavíkur á ári? Hvað kostar það? Fá bílstjórarnir greitt eftir því hve miklu magni af salti þeir dreifa? Getur íbúi sem sér salteðjuna hvað eftir annað þekja trén og blómabeðin í garðinum sínum farið fram á skaðabætur ef gróðurinn skemmist? Geta bílaeigendur fengið bætur fyrir óeðlilega ryðmyndun á bíl sínum vegna saltpækilsins? Getur það virkilega verið eðlilegt að saltbíll komi þrisvar sinnum í sömu götuna á 2 klst. tímabili?

Mér er kunnugt um að samhljóða spurningar hafa verið sendar beint til gatnamálastjóra, umhverfisstofu o.fl. aðila sem ætla mætti að hefðu eitthvað um þetta mál að segja, en engar upplýsingar hafa borist.

Föstudagurinn 28. febrúar sl. rann upp bjartur og fagur hér í höfuðborginni, sólin skein glatt, lofthiti yfir frostmarki og allar götur þurrar eins og best gerist á regnlausum sumardegi. Veðurspáin um kvöldið gaf engar vísbendingar um snöggar veðrabreytingar og þegar birti af degi árla næsta dag voru allar götur snjólausar, frostlausar og þurrar. En viti menn. Kemur ekki saltbíllinn og dreifir salti í allar áttir.

Meira að segja um kaffileytið daginn eftir (sunnudaginn 2. mars) mátti sjá hvernig þurrar saltkúlurnar höfðu feykst út í vegkantana út frá hjólbörðum bílanna og höfðu myndað þar hrygg sem víða náði tuga og sums staðar hundrað metra lengd.

Nú væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar og skýringar í þessum dálkum eða annars staðar í blaðinu.

Saltvondur íbúi.

Fífi er týnd

GRÁBRÚN persnesk læða týndist frá Þórsgötu. Hún er er krúnurökuð á bakinu. Hennar er sárt saknað. Þeir sem vita um Fífi hafi samband í síma 6917306.