Frá vinstri: Þormóður Þormóðsson, Þorkell Ágústsson og Hekla Sörensen.
Frá vinstri: Þormóður Þormóðsson, Þorkell Ágústsson og Hekla Sörensen.
Rannsóknarnefnd flugslysa skráði í fyrra 93 atvik í flugi íslenskra loftfara hérlendis og erlendis og erlendra loftfara um íslenska lögsögu og íslenska flugstjórnarsvæðið. Jóhannes Tómasson ræddi við forráðamenn RNF.

SÍÐUSTU árin hefur orðið nokkur breyting á starfi Rannsóknarnefndar flugslysa, RNF, en lögum um starfsemi hennar var breytt árið 1996. Fyrir þann tíma var rannsókn á flugslysum og flugatvikum á hendi Rannsóknardeildar Flugmálastjórnar og Flugslysanefndar. Í dag heyrir RNF beint undir samgönguráðherra og starfar óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum.

Rannsóknarnefnd flugslysa skipa Þormóður Þormóðsson rannsóknarstjóri en hann hefur BS-gráðu í flugrekstrar- og tæknistjórnun, Þorkell Ágústsson verkfræðingur er aðstoðarrannsóknarstjóri, Kristján Guðjónsson, lögfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins, Steinar Steinarsson, flugstjóri hjá Flugleiðum, og Þorsteinn Þorsteinsson, sjálfstætt starfandi flugvélaverkfræðingur. Tveir þeir fyrstnefndu eru í fullu starfi hjá RNF og ráðnir ótímabundið en hinir nefndarmennirnir eru skipaðir til fjögurra ára í senn. Rennur skipunartími þeirra út 30. júní á næsta ári. Þormóður hóf störf í febrúar 2001, fyrst sem starfsmaður nefndarinnar, og tók síðar við af Skúla Jóni Sigurðarsyni, sem veitt hafði rannsóknarnefndinni forstöðu um árabil. Þorkell kom til starfa í byrjun síðasta árs. Auk þeirra starfar hjá nefndinni Hekla Sörensen fullrúi.

Mikilvægt að fá allar upplýsingar

Í samtali við Morgunblaðið segja þeir Þormóður og Þorkell að sjálfstæði RNF sé grundvallaratriði. ",Rannsóknir okkar miða að því einu að koma í veg fyrir að flugatvik eða slys endurtaki sig og að auka öryggi í flugi. Þess vegna er það svo mikilvægt að við fáum allar upplýsingar og að þeir sem koma við sögu í hverju máli séu fúsir til að greina frá öllu sem þeir vita varðandi málið. Þeir verða þá líka að treysta því að gögn nefndarinnar séu ekki notuð sem sönnunargögn í opinberum málum enda er tilgangur rannsókna okkar ekki að draga fram sök," segir Þormóður og leggur mikla áherslu á þetta grundvallaratriði. "Í kjölfar lagabreytingarinnar hefur síðan verið skorið á tengslin við Flugmálastjórn og það ásamt auknum fjárráðum RNF hefur gert það að verkum að við teljum okkur nú starfa alveg sjálfstætt."

Stefnumótun í kjölfar breytinga

"Við teljum að RNF njóti almenns trausts í flugheiminum og við viljum viðhalda því trausti sem búið er að byggja upp gegnum árin," segir Þorkell og nefnir að nokkru eftir að þeir Þormóður komu til starfa hafi verið ákveðið að ráðast í stefnumótunarvinnu. Hana annaðist rannsóknarnefndin en fulltrúi frá samgönguráðuneyti kom að þeirri vinnu. Jafnframt kynntu menn sér starfsemi hliðstæðra nefnda í nokkrum nágrannalöndunum. RNF hefur aðsetur í húsi Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík við Flugvallarveg og fær á næstunni viðbótarpláss þar, m.a. fyrir fundarherbergi. Þá er verið að leita að aðstöðu fyrir geymslu á rannsóknargögnum, flugvélum eða hlutum úr þeim en slík gögn getur nefndin geymt meðan rannsókn stendur eða svo lengi sem henni þykir ástæða til.

Þeir Þormóður og Þorkell segja að fengist hafi nokkurt fjárframlag til að bæta við ýmsum tækjum og búnaði. "Þá eigum við bæði við tölvubúnað og annan skrifstofubúnað sem orðið var nauðsynlegt að endurnýja og ýmis fleiri verkfæri, búnað og tæki sem við notum við rannsóknirnar en ýmis sérhæfð tæki leigjum við síðan eftir því sem þarf," segir Þormóður.

Við rannsóknir getur þurft að greina og lesa úr ýmsum sérstökum atriðum t.d. varðandi málma eða önnur efni sem getur verið til að varpa ljósi á tiltekin atriði og hefur RNF í því skyni samið við Iðntæknistofnun um að hafa aðgang að sérfræðingum á ýmsum sviðum. Í þessu sambandi má einnig nefna að nefndin hefur samið við Flugbjörgunarsveitina um að koma rannsóknarmönnum á slysavettvang og tryggja öryggi þeirra þar.

Rannsóknir flugslysa og atvika eiga sér iðulega stað í samstarfi við slíkar nefndir í öðrum löndum. Segir Þormóður að á síðasta ári hafi RNF aðstoðað rannsakendur erlendis í átta tilvikum sem íslenskar flugvélar komu við sögu atvika erlendis og nokkur minni háttar atvik hentu erlendar flugvélar á Íslandi sem RNF rannsakaði. Þormóður segir mikilvægt að geta líka átt erlenda rannsakendur að þegar viðamikil mál eru til rannsóknar hjá RNF. "Þess vegna höfum við samið við nokkrar erlendar rannsóknarnefndir, þá bresku, dönsku og norsku og eigum í viðræðum við bandarísku samgöngurannsóknarnefndina, NTSB. Þessir samningar ganga út á gagnkvæma aðstoð og þrátt fyrir að slík aðstoð sé veitt án slíkra samninga er betur um hnútana búið með því að hafa þá formlega."

Þorkell segir þá Þormóð hafa sótt nokkur námskeið í Bretlandi og Bandaríkjunum, meðal annars hjá Flugöryggisstofnun Suður-Kaliforníu, SCSI, sem hélt námskeið hérlendis á dögunum í samvinnu við RNF. "Það hefur verið mjög lærdómsríkt að sækja slík námskeið enda er tilgangurinn sá að viðhalda faglegum vinnubrögðum og fylgjast með því sem er að gerast í rannsóknaraðferðum og tækni á þessu sviði."

Áherslur að breytast

Í lokin segir Þormóður að áherslur séu að breytast nokkuð í flugslysarannsóknum í heiminum. "Lengi vel hefur verið lögð áhersla á að rannsaka aðeins flugslys. Á síðasta áratug lagði Alþjóðaflugmálastofnunin til að rannsóknanefndir legðu sömu áherslu á alvarleg flugatvik enda er aðdragandi þeirra hinn sami en kannski aðeins tilviljun sem ræður að ekki verður slys," segir hann. Bendir hann einnig á að þegar alvarlegt flugatvik verður er hægt að ganga að rannsóknargögnum og fá upplýsingar með viðtölum við þá sem komu við sögu. Slíkt sé oft ekki unnt þegar slys hefur orðið, fólk farist og gögn spillist. Segir Þormóður að ljóst sé að vegna aukinnar flugumferðar næstu áratugi sé ljóst að flugslysum og -atvikum fjölgi. Vilja menn gera allt sem unnt er til að forðast að þeim fjölgi í sama hlutfalli og umferðin. "Þess vegna vilja menn leggja aukna áherslu á rannsóknir á atvikum og nú er til dæmis uppi hugmynd um að safna upplýsingum um uppákomur í flugi og atvik í gagnagrunn. Reynsla rannsakenda er sú að áður en slys verður hafa komið fram einhver frávik sem gáfu vísbendingu um að öryggi var ógnað. Með því að safna slíkum upplýsingum í miðlægan gagnagrunn til frekari greiningar er hugsanlega hægt að koma auga á galla áður en flugslys verður."

Gagnagrunnur í undirbúningi

Þormóður segir að Alþjóðaflugmálastofnunin og Evrópusambandið séu að undirbúa jarðveginn fyrir slíkan gagnagrunn en erfiðasti hjallinn sé að fá einstaklinga til að greina frá uppákomum. Með því séu þeir hugsanlega að sakfella sig. "En forsendurnar fyrir því að fá fram þessar upplýsingar eru annars vegar hegningarlaust umhverfi, þ.e. að menn verði ekki sóttir til saka, og hins vegar að trygging fyrir því að nafn viðkomandi komi hvergi fram. Við erum að vinna að því að koma slíku kerfi á hérlendis ásamt samgönguráðuneytinu og Flugmálastjórn."

joto@mbl.is