ATVINNULEYSI mælist nú ríflega 4% og hefur að mati forstjóra Vinnumálastofnunar, Gissurar Péturssonar, líklega náð hámarki. Hann telur líklegt að atvinnuástandið skáni á næstu vikum.

ATVINNULEYSI mælist nú ríflega 4% og hefur að mati forstjóra Vinnumálastofnunar, Gissurar Péturssonar, líklega náð hámarki. Hann telur líklegt að atvinnuástandið skáni á næstu vikum. Atvinnuleysið hefur ekki verið meira í nærri sjö ár, eða frá árinu 1996, en atvinnuleysi það ár var að meðaltali 4,4%. Um síðustu mánaðamót voru 6.212 einstaklingar skráðir atvinnulausir, eða 4,1% af mannafla á vinnumarkaði. Í gær voru skráðir 6.224 einstaklingar hjá Vinnumálastofnun, sem er aðeins 0,2% aukning á tveimur vikum. Í janúar sl. fjölgaði atvinnulausum um eitt þúsund og nokkur hundruð í febrúar.

"Ég held að atvinnuleysistalan verði ekki hærri og leiðin liggi niður á við aftur," segir Gissur og byggir það mat að nokkru leyti á árstíðinni. Venjan sé sú að atvinnuleysi minnki í apríl og maí. Einnig hafi tíðindi borist að undanförnu af framkvæmdum sem séu að fara í gang og það hafi áhrif í ýmsum greinum samfélagsins.

Að sögn Gissurar spáði Vinnumálastofnun að atvinnuleysi í marsmánuði yrði á bilinu 3,8 til 4,2% og allt stefnir í að talan fari á ný undir 4% og haldi áfram að lækka. Gera megi ráð fyrir um 3% atvinnuleysi að meðaltali yfir árið. Það sé reyndar meira en verið hefur síðustu ár en muni fara lækkandi á næstu árum vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi og annarra framkvæmda víða um land.

"Það er mikil hreyfing í skráningu vinnumiðlana hjá okkur. Á sumum stöðum sópast fólk út af listunum," segir Gissur en bendir á að viðbrögðin séu hægari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þó geti aflabrögð eða tíðarfar haft mikil áhrif. Þannig hafi atvinnulausum í Vestmannaeyjum fækkað á fáum dögum um 60 manns vegna fleiri fiskvinnslustarfa.

Áhyggjur af sumarstörfum

Gissur segist hins vegar hafa nokkrar áhyggjur af sumarstörfum fyrir skólafólk. Sá hópur standi utan við mælingar Vinnumálastofnunar að undanförnu en geti haft áhrif á þær í sumar. Fregnir hafa borist af því að undanförnu, einkum af stærri fyrirtækjum, að færri verði ráðnir til sumarstarfa en áður.

Fjöldi umsókna hefur víða verið mikill, þannig sóttu 800 manns um sumarafleysingar hjá Alcan í Straumsvík, áður Ísal.