Rokk var það heillin! Artimus Pyle lét verkin tala.
Rokk var það heillin! Artimus Pyle lét verkin tala.
Tónleikar bandarísku rokksveitarinnar Artimus Pyle. Einnig léku I Adapt og Snafu. Föstudagurinn 14. mars, 2003.

ARTIMUS Pyle er sjálfsþurftarrokksveit frá San Francisco skipuð þremur strákum sem eiga ekki bót fyrir brók. Hins vegar lifa þeir fyrir tónlistina, eitthvað sem rekur þá í ferðalög um heimsins höf til að breiða út fagnaðarerindið. Hingaðkomnir léku þeir á tvennum tónleikum og segir hér frá þeim fyrri.

Þetta var ekki kvöld Snafu. Sigurður söngvari raddlaus og hljómur til vansa. Sigurður gaf sig þó allan og fær hann algjöra "virðingu" fyrir það. En settið fór svona fyrir ofan garð og neðan, aðallega vegna hljóms. Inn á milli mátti glitta í fullt af hugmyndum; Snafu eru að pæla og tveir hlutir eru þeirra: flókið taktskipt rokk, á stundum sinfónískt - alltént hvað lengd varðar og "grúvið" er oft fantagott. En illu heilli heyrðist þetta báglega þetta kvöldið. Gengur betur næst.

I Adapt er mesta stemningssveit Harðkjarnans. Og þótt ótrúlegt megi virðast sú eina sinnar tegundar hér á landi. Sveitin spilar sígilt, melódískt harðkjarnarokk af gamla skólanum og tónleikar þeirra koma róti á skanka fólks og hugsanir. Það geislar ávallt af söngvaranum Birki sem, eins og bandið allt reyndar, leggur sig ávallt 110% fram. Fólk syngur með í viðlögum og slík var stemningin að sveitin átti hreinlega erfitt með að hætta. Nýr trommuleikari, Elli (sem leikur og með mulningsrokkurunum í Molesting Mr. Bob) barði sig þá inn með glans. Fín frammistaða hjá I Adapt.

Vá. Artimus Pyle stóðu sannarlega undir væntingum sem hávær - og hreinlega brjáluð - rokkhljómsveit. Rokk með risastóru R-i, risastóru O-i, risastóru K-I, já og öðru, risastóru K-I. Ég hafði forðast það vísvitandi að nálgast tóndæmi með sveitinni fyrir tónleikana í þeirri von að hárin myndu rísa af furðu við fyrsta tón. Svo varð og raunin því Artimus umbreyttust í tónlistarleg drápstól strax í fyrsta lagi. Algjör sprengja. Skemmtilegt líka hversu erfitt er að negla bandið niður stíllega, en nálgun þess við hart rokk er um margt fersk og nýstárleg. Farið var úr hefðbundnu mulningsrokki ("grindcore") yfir í Black Sabbath-legt sorarokk ("sludge") og svo aftur í "einn, tveir, þrír" harðkjarnastuð. Hljómurinn var rosalegur, bandið þétt og rokksköddunin væn og góð. Allt í allt fínasta eyrnabomba.

Arnar Eggert Thoroddsen