STARFSHÓPUR sem fjallað hefur um bættar samgöngur til Vestmannaeyja segir í skýrslu sinni til samgönguráðherra að frumathuganir bendi til að bygging ferjuaðstöðu á Bakkafjöru geti verið bæði raunhæfur og fýsilegur kostur. Starfshópurinn kannaði m.a.

STARFSHÓPUR sem fjallað hefur um bættar samgöngur til Vestmannaeyja segir í skýrslu sinni til samgönguráðherra að frumathuganir bendi til að bygging ferjuaðstöðu á Bakkafjöru geti verið bæði raunhæfur og fýsilegur kostur. Starfshópurinn kannaði m.a. þrjá kosti til að stytta siglingatíma ferju á milli Eyja og lands. Í niðurstöðu hópsins þar sem fjallað er um byggingu ferjulægis á Bakkafjöru segir:

"Verði af þessu má hugsa sér að ferja gangi frá Vestmannaeyjum á tveggja klukkustunda fresti, en siglingin milli lands og Eyja kemur til með að taka um hálfa klukkustund. Starfshópurinn leggur áherslu á að stjórnvöld stuðli að því að unnt verði að gera þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru á næstu tveimur til þremur árum til að hægt verði að skera úr um það til fullnustu hvort og með hvaða hætti fýsilegt sé að byggja þetta mannvirki. Geti orðið af ferjulægi á Bakkafjöru skal að því stefnt að ferja verði farin að sigla milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru á árunum 2007 til 2008. Leggur starfshópurinn til að ekki verði ráðist í stórfelldar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum eða samgöngutækjum fyrir Vestmannaeyjar fyrr en niðurstaða liggur fyrir um möguleikann á að reisa ferjuaðstöðu á Bakkafjöru því sú niðurstaða mun verða afgerandi fyrir það hvernig samgöngumálum Eyjanna verður háttað í framtíðinni."

Dýrt að auka ganghraða Herjólfs

Einnig var fjallað um þann kost að gera Herjólf hraðskreiðari með því að lengja hann og auka við vélarafl. Athugun á þessum möguleika leiddi til þeirrar niðurstöðu að mjög dýrt yrði að auka ganghraða skipsins. Einnig var kannaður sá möguleiki að láta smíða eða kaupa stærra og hraðskreiðara skip. "Ætla má að kostnaður við smíði ferju er væri 90 til 100 m að lengd, með 20-22 hnúta ganghraða, gæti numið á bilinu 2,5 til 4 milljarðar króna eftir því hvernig skipið yrði búið og hvar það yrði smíðað. Er þá miðað við að smíðað yrði hefðbundið skip," segir í skýrslunni.

Athugun á þeim kosti að nota svonefndar háhraðaferjur á milli lands og Eyja leiddi í ljós að svo miklar takmarkanir yrðu á notkun háhraðaferja, m.a. vegna strangra takmarka um ölduhæð fyrir slík skip, að tómt mál væri að tala um að nota þær á þessari siglingaleið. Þá leiddi athugun í ljós að kostnaður við kaup og rekstur loftpúðaskips myndi nema milljörðum kr. og notagildi þess yrði auk þess takmarkað. Mælir starfshópurinn því ekki með þeim kosti.

Styðja við rekstur áætlunarflugs

Starfshópurinn telur rétt að kannað verði, þegar núverandi samningar um ríkisstyrkt sjúkra- og áætlunarflug renna út, hvort unnt sé að styðja við rekstur áætlunarflugs til Eyja í ljósi þess að Vestmannaeyjar eru ekki í þjóðvegasambandi. Á það er einnig bent í skýrslunni að aðstaða á Bakkaflugvelli sé ófullnægjandi og er lagt til að bætt verði úr henni með því að koma upp nýrri flugstöð með viðhlítandi aðstöðu fyrir farþega og umsjónarmann vallarins.