ÚTLENDINGASTOFNUN hefur vísað þremur af fjórum Pólverjum, sem í byrjun mars voru dæmdir fyrir innbrot, úr landi og út af Schengen-svæðinu og á laugardag sá ríkislögreglustjóri til þess að þeir færu til Póllands.

ÚTLENDINGASTOFNUN hefur vísað þremur af fjórum Pólverjum, sem í byrjun mars voru dæmdir fyrir innbrot, úr landi og út af Schengen-svæðinu og á laugardag sá ríkislögreglustjóri til þess að þeir færu til Póllands. Ekki hefur verið úrskurðað í máli fjórða mannsins, þess sem hlaut vægasta dóminn, en hann er eftirlýstur í heimalandi sínu fyrir nauðgun, innbrot og fleira. Er hann því enn hér á landi.

Mennirnir voru dæmdir fyrir að stela tveimur bifreiðum, innbrot í Staðarsveit og tilraun til innbrots í þjónustumiðstöðina Vegamót á Snæfellsnesi 1. desember 2002. Lögreglan í Borgarnesi hafði hendur í hári þeirra en þrír köstuðu sér út úr sendibifreið á flóttanum. Einn mannanna hlaut 30 daga skilorðsbundið fangelsi, tveir fengu sex mánaði og einn fimm mánaði. Þegar mennirnir voru dæmdir höfðu þeir að mestu eða öllu leyti setið af sér refsinguna því þeir höfðu verið í gæsluvarðhaldi frá því þeir náðust.

Jóhann Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Útlendingastofnun, segir að stefnt sé að því að kveða upp úrskurð í máli mannsins í vikunni. Spurður um hvers vegna mál mannsins taki lengri tíma en hinna þriggja segir Jóhann að það helgist m.a. af því að hann hlaut vægari refsingu en hinir.

Smári Sigurðsson, yfirmaður alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, segir að pólsk yfirvöld hafi ekki óskað eftir framsali á manninum, e.t.v. vegna þess að þau búist við að honum verði vísað úr landi til Póllands.