Menntaskólinn á Akureyri. Hvurslags eiginlega er þetta?
Menntaskólinn á Akureyri. Hvurslags eiginlega er þetta?
HVER er þessi Eydís á Bylgjunni? spyr Sverrir Páll Erlendsson menntaskólakennari á Akureyri á vefsetri sínu. "Ég hélt fyrst að hún væri nýr dagskrárgerðarmaður á Bylgjunni en komst síðar að því að það er misskilningur," heldur hann áfram.

HVER er þessi Eydís á Bylgjunni? spyr Sverrir Páll Erlendsson menntaskólakennari á Akureyri á vefsetri sínu. "Ég hélt fyrst að hún væri nýr dagskrárgerðarmaður á Bylgjunni en komst síðar að því að það er misskilningur," heldur hann áfram. "Hins vegar er linmæli margra útvarpsmanna slíkt latmæli að meira að segja enskan þeirra er orðin illskiljanleg. Þetta var sko ekki nein Eydís heldur voru þeir að auglýsa eighties. Það er út af fyrir sig til skammar að kalla dagskrárliði íslenskrar útvarpsstöðvar ensku nafni. Mér finnst á hinn bóginn að útvarpsstöðvar ættu að setja þá lágmarkskröfu að starfsmenn þeirra tali skýrt og skiljanlegt mál."

Víkverji stingur stundum við stafni á vefsetri Sverris Páls enda eiga þeir það sammerkt að vera miklir áhugamenn um verndun íslenskrar tungu. Oftar en ekki er tungan ofarlega á baugi hjá Sverri Páli og á köflum er honum mikið niðri fyrir. Í öðrum pistli segir hann: "Mér finnst afskaplega skammarlegt að Flugfélag Íslands, sem sameinaðist Loftleiðum svo úr urðu Flugleiðir, skuli nú heita ÆSLANDER og mér finnst líka til háborinnar skammar að Flugleiðahótel skuli ekki lengur heita íslensku nafni heldur ÆSLANDER HOTELS. Eins er makalaust að Ferðaskrifstofa Íslands skuli hafa skammstöfunina ITB. Hvers konar íslenska er það? Það er líka hálfaumingjalegt að búðin sem hét 66° Norður heitir núna 66° NORTH, og ömurlegt að horfa upp á tískubúðanöfn eins og Factory, Perfect, Company, Centro, Hanz og Zara á Íslandi. Við búum enn á Íslandi, ekki Æslandi, og þar er enn töluð íslenska og það er dónaskapur að nota ekki íslenskt mál þar sem því verður komið við með góðu móti. Fyrr má nú selja sig!!!"

Þetta eru orð í tíma töluð, þykir Víkverja. Og tekur undir með menntaskólakennaranum: Hvers konar íslenska er þetta eiginlega?

Fyrir áhugamenn um íslenskt mál - og raunar sitthvað fleira - er slóðin á vefsetur Sverris Páls: www.ma.is/kenn/svp/pistlar/index.htm

TALANDI um Menntaskólann á Akureyri, þá hrökk Víkverji í kút á dögunum þegar Tryggvi Gíslason skólameistari léði máls á því "með blæðandi hjarta" að skólaárið þar á bæ yrði fært til samræmis við aðra framhaldsskóla landsins. Á dauða sínum átti Víkverji von en ekki þessu. Hvað ætla Akureyringar að gera næst? Sameina Þór og KA? Skólaárið í MA hefst í byrjun október og lýkur 17. júní. Punktur, basta. Víkverja segir svo hugur að fyrrnefndur Sverrir Páll hljóti að hafa skoðun á þessu máli og hann bíður þess nú í ofvæni að hann fjalli um málið á vefsetri sínu. Enginn er skóli án hefða!