Aðaltvímenningur Bridsfélags Reykjavíkur hófst fyrir viku og stendur keppnin yfir í sex þriðjudagskvöld. Þetta er alltaf vinsæl keppni, en þátttakan nú er sérlega góð, eða 50 pör.

Aðaltvímenningur Bridsfélags Reykjavíkur hófst fyrir viku og stendur keppnin yfir í sex þriðjudagskvöld. Þetta er alltaf vinsæl keppni, en þátttakan nú er sérlega góð, eða 50 pör. Langefstir eftir fyrsta kvöldið eru bræðurnir Hrólfur og Oddur Hjaltasynir, sem hafa margsannað það undanfarin ár að BR er þeirra heimavöllur. Í öðru sæti eru Björn Theódórsson og Sigurður B. Þorsteinsson. Þeir Björn og Sigurður fengu þó heldur kaldar kveðjur frá Jónasi P. Erlingssyni í þessu spili:

Suður gefur; AV í hættu.

Norður
874
K2
ÁK10
D9864

Vestur Austur
ÁG93 2
ÁG73 1085
G62 98754
105 K732

Suður
KD1065
D964
D3
ÁG

Jónas vaki á einum spaða og varð á endanum sagnhafi í fjórum spöðum, eins og flestir aðrir í salnum. Samningurinn virðist dæmdur til að fara einn niður, því vestur situr með hjartaás og þrjá slagi á tromp. Og þannig fóru leikar út um allan sal - nema þar sem Jónas var við stýrið. Hann hafði tilfinningu fyrir því að spilið lægi illa og ákvað að spila samkvæmt því.

Sigurður kom út með smáan tígul, sem Jónas tók heima, spilaði hjarta á kóng og spaða úr borði á kónginn. Sigurður dúkkaði - lét þristinn - en Jónas fann fyrir örlitlu hiki, sem benti til að vestur ætti ásinn. Jónas hugsaði sem svo að ekki væri skynsamlegt að dúkka með ÁG3, því ekkert mælti á móti því að austur hefði byrjað með Dx. Þar með taldi Jónas líklegt að vestur væri með fjórlit og spilaði upp á það. Hann tók ÁK í tígli og henti laufgosa. Gaf svo slag á hjarta. Vörnin spilaði laufi til baka á ásinn og Jónas trompaði hjarta, lauf heim og hjarta í borði. Allt gekk þetta upp og blindur átti út í þriggja spila endastöðu, þar sem suður og vestur voru altrompa. Vestur varð að taka næsta slag og spila frá ÁG í trompi upp í Dx. Tíu slagir og tær toppur í NS.