Íslenski, lífræni osturinn er sagður minna á hollenska goudaostinn.
Íslenski, lífræni osturinn er sagður minna á hollenska goudaostinn.
HAFINN er undirbúningur að framleiðslu á lífrænum ostum hér á landi. Það er starfsfólkið í Skaftholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem er að undirbúa ostagerðina og koma upp aðstöðu fyrir hana svo hægt sé að fara að framleiða og selja ostana.

HAFINN er undirbúningur að framleiðslu á lífrænum ostum hér á landi. Það er starfsfólkið í Skaftholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem er að undirbúa ostagerðina og koma upp aðstöðu fyrir hana svo hægt sé að fara að framleiða og selja ostana.

"Undanfarin tólf til þrettán ár höfum við framleitt osta hér á bænum fyrir heimilið en langar að færa út kvíarnar," segir Guðfinnur Jakobsson bóndi í Skaftholti. Hann segir að um venjulegan heimilisost sé að ræða sem sé ekki ósvipaður hollenskum goudaosti og osturinn í Skaftholti er alfarið búinn til úr lífrænni mjólk.

Þegar hann er spurður hvort í Skaftholti hafi verið búnar til aðrar mjólkurafurðir segir hann að af og til hafi verið búin til kotasæla fyrir heimilisfólkið og svo strokkað smjör og búið til skyr og jógúrt.. "Við munum þó til að byrja með einbeita okkur alfarið að þessari einu ostategund."

Guðfinnur segir að í Skaftholti sé grænmeti ræktað bæði í gróðurhúsum og úti en auk þess eru á bænum kýr, kindur og hænsni. Skaftholt er sjálfseignarstofnun og þar búa nú auk Guðfinns og hans fjölskyldu, nokkrir starfsmenn og átta þroskaheftir einstaklingar sem starfa við bústörfin og annað sem til fellur.