AÐALFUNDUR Hraðfrystihúss Eskifjarðar, sem haldinn var síðastliðinn föstudag, ákvað að nafn félagsins skyldi stytt í Eskja hf. Um leið var kynnt nýtt merki félagsins. Að sögn Elfars Aðalsteinssonar, forstjóra Eskju, var ástæða nafnbreytingarinnar...

AÐALFUNDUR Hraðfrystihúss Eskifjarðar, sem haldinn var síðastliðinn föstudag, ákvað að nafn félagsins skyldi stytt í Eskja hf. Um leið var kynnt nýtt merki félagsins.

Að sögn Elfars Aðalsteinssonar, forstjóra Eskju, var ástæða nafnbreytingarinnar þríþætt. ,,Í fyrsta lagi var gamla nafnið erfitt í markaðssetningu, sér í lagi gagnvart erlendum viðskiptavinum okkar. Í öðru lagi var markaðsaðilum orðið tamt að stytta gamla nafnið í Hresk, eða Hreski, og fór það óneitanlega fyrir brjóstið á mörgum. Í þriðja lagi er rekstur félagsins orðinn mun fjölþættari en gamla nafnið gaf til kynna," sagði Elfar.

Öskjulaga laut

Spurður um tildrög nafnsins sagði Elfar að nafnið mætti rekja til öskjulaga lautar er fyrirfyndist í hlíðum Eskifjarðarheiðar. ,,Eskifjörður hét í árdaga Eskjufjörður og finnst okkur þetta kennileiti tvinna vel saman sögu bæjarins og félagsins. Nýja merkið okkar stendur fyrir silfur hafsins og er bein tilvísun í bæði verðmæti náttúrunnar og þeirra afurða sem hún gefur af sér."

Eskja hf. skilaði 1.010 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Í máli Magnúsar Bjarnasonar stjórnarformanns kom fram að hagnaðurinn væri sá mesti í sögu þess. Veiðar og vinnsla uppsjávarfisks hafi gengið með eindæmum vel á árinu og afurðaverð haldist hátt mestan hluta ársins. Bolfiskveiðar og -vinnsla hafi einnig gengið vel, en rækjuveiðum og -vinnslu var hætt í lok árs vegna viðvarandi tapreksturs.

Magnús hættir eftir 47 ára starf

Á fundinum lét Magnús af stjórnarformennsku og gekk úr stjórn félagsins og lauk þar með 47 ára starfi fyrir félagið. ,,Miklar breytingar hafa átt sér stað á þessum tíma og nægir að nefna þær sem orðið hafa á fjármálamarkaði, en áður fyrr þurftum við Aðalsteinn Jónsson oft að bregða okkur í betri fötin og ganga bónleiðina til Reykjavíkur," sagði Magnús. Í fundarlok þakkaði forstjóri félagsins Magnúsi fyrir hans ævistarf í þágu félagsins og klöppuðu fundargestir honum lof í lófa.

Í máli Elfars Aðalsteinssonar forstjóra kom fram að rekstur síðustu tveggja ára væri nokkuð svipaður. Arðsemi væri góð, veltufé frá rekstri væri hátt og eiginfjárhlutfall félagsins styrktist óðum og væri nú tæp 33%. Hann sagði lokun rækjuvinnslu Eskju hafa verið vonbrigði, en óhjákvæmilega vegna erfiðra aðstæðna í greininni. Á móti kæmi að félagið ætti von á 1.357 þorskígildistonnum, vegna kaupa á Hópi ehf. í Grindavík og yrði það mikil styrking fyrir bolfiskvinnslu þess.

Um framtíðarhorfur sagði Elfar: "Það er ljóst að íslenskur sjávarútvegur hefur byggst upp í heilbrigða og frjálsa atvinnugrein síðustu 20 árin. Reglugerðarfargani hefur verið varpað fyrir róða og greinin hefur notið þess stöðugleika sem skapaður hefur verið. Fyrirtækin hafa opnast upp með markaðsvæðingu greinarinnar og hluthafar hafa margfaldast. Í árslok 2000 áttu um 19.000 manns beina eignaraðild að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, í dag eru þeir 27.000, eða um 10% þjóðarinnar. Eru þá ótaldir hinir fjölmörgu sjóðir og fjárfestingarfélög sem Íslendingar eiga óbeina eignaraðild að. Greinin mun brátt inna af hendi auðlindagjald og styrkja með því íslenska ríkið - þveröfugt við sjávarútveg nágrannaþjóða okkar, þar sem veiting ríkisstyrkja er daglegt brauð. Því er óskiljanlegur málflutningur þeirra sem fórna vilja uppbyggingu síðustu ára og gera fjöregg þjóðarinnar að leiksoppi pólitísks valdabrölts," sagði Elfar í ræðu sinni.

Á fundinum kom fram að laun forstjóra hefðu numið 11.356 þúsund krónum, en hann var 16. launahæsti starfsmaður Eskju á árinu. Ákveðið var að greiða 25% arð af nafnverði, eða sem nemur um 11% af hagnaði.