Þetta mál snýst um Írak, en ekki um Bandaríkin, nema einungis það sem Bandaríkjamenn eru að gera núna. Ekki um meintan hroka þeirra. Ekki um meintar fyrri syndir þeirra.

Fáar vísbendingar eru nú um að Bandaríkjamenn og Bretar ráðist ekki á Írak. Öll mótmælin og dómsdagsspárnar hafa komið fyrir ekki. Þetta er dapurleg niðurstaða á sorglegu máli.

En umræðan - deilurnar - um málið hefur verið með dálítið skringilegum hætti, oft á tíðum, á Vesturlöndum, og stundum hefur manni virst sem stríðsandstæðingarnir hafi verið búnir að gleyma því um hvað málið snerist, það er að segja um Írak. Um það, hvort írösk stjórnvöld hefðu yfir að ráða gereyðingarvopnum sem hætta væri á að yrði beitt gegn saklausu fólki einhversstaðar í heiminum; um það, hvort eina leiðin til að tryggja að slíkt yrði ekki að veruleika væri að verða fyrri til, og afvopna Íraka með valdi. Og um hvort það sé betra fyrir Íraka að sitja áfram undir Saddam eða verða fyrir árás Vesturlanda.

Nei, hin meinta andstaða við stríð virtist oft vera í rauninni andstaða gegn Bandaríkjunum - því sem þau eru, standa fyrir og hafa gert, fremur en gegn því sem þau eru að gera nákvæmlega núna - þ.e. að fara í stríð við Írak.

Það, að fara í stríð, er hið skelfilegasta mál og hér skal því alls ekki mælt bót, en umræðan hefði átt að snúast um nákvæmlega það. Umræðan hefði ekki átt að snúast um það hvort Bandaríkin séu orðin of öflug, áhrif þeirra séu vond og Bandaríkjamenn alltof hrokafullir og geti sjálfum sér um kennt að allir séu á móti þeim.

Þetta mál snýst um Írak, en ekki um Bandaríkin, nema einungis það sem Bandaríkjamenn eru að gera núna. Ekki um meintan hroka þeirra. Ekki um meintar fyrri syndir þeirra. Að beita slíkum rökum gegn Bandaríkjamönnum væri það sem í rökfræði heitir ad hominem, að ráðast á andstæðinginn persónulega, en ekki orð hans eða gjörðir. Ad hominem er yfirleitt talið einskonar rökvilla.

Hvers vegna hefði verið æskilegt að tekist hefði að koma í veg fyrir að farin yrði herför á hendur Saddam Hussein? Þetta er nú eiginlega bjánaleg spurning, svo augljóst er svarið. Það er næstum því allt á sig leggjandi til að forðast styrjaldir.

En samt hefur þessari spurningu verið svarað með öðrum hætti. Um daginn sagði í frétt, að franskur almenningur hefði verið hæstánægður með forsetann sinn, Jacques Chirac, er hann lofaði því að beita neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að tryggja að ályktunardrög Bandaríkjamanna, Breta og Spánverja um árás á Írak myndi ekki fást samþykkt.

Og hvað var franski almenningurinn svona ánægður með? Jú, að forsetinn skarpgreindi skyldi standa uppi í hárinu á Bandaríkjamönnum.

Gleymdist ekki eitthvað þarna?

Bandaríkjamenn eru fyrir löngu orðnir mjög fúlir út af því að Frakkar skuli ekki vilja vera með í því að lýsa stuðningi SÞ við stríðið, og það er einmitt það sem Frökkum finnst svo dæmigert fyrir þessa hrokafullu Bandaríkjamenn - þeir láta eins og allir skuli lúta þeirra vilja en hundar heita ella.

Kannski er eitthvað til í þessu hjá Frökkunum, en það vill svo til að þeir eru kannski svolítið að kasta þarna grjóti úr glerhúsi. Ekki er langt síðan þessi sami Chirac hundskammaði nokkur verðandi Evrópusambandsríki fyrir að vera með uppsteyt og gera ekki eins og Frakkar vildu að þau gerðu. Er nema von að maður hafi meinta greind þessa franska forseta í flimtingum?

En svo hann njóti nú sannmælis er rétt að taka fram að þau rök sem heyrst hafa frá honum í málinu eru helst á þá leið, að vopnaeftirlitsmenn SÞ fullyrði að hægt sé að afvopna Íraka á friðsamlegan hátt. Sé þetta rétt hjá eftirlitsmönnunum þýðir það að hægt væri að ná yfirlýstu markmiði Bandaríkjamanna - afvopnun Íraka - án átaka. Þetta eru sterk rök hjá Chirac.

Að vísu er málið örlítið flóknara því að Bandaríkjamenn vilja hrekja Saddam frá völdum þar eð þeir álíta hann hættulegan brjálæðing. Þess vegna væri friðsamleg afvopnun ekki nema hálf sagan. Ekki hefur heyrst neitt frá Chirac um þetta atriði.

En hvað veldur því að skynsamt fólk gleymir aðalatriðum og notfærir sér Íraksdeiluna til að koma höggi á Bandaríkjamenn? Svo spurningin sé nú orðuð aðeins meira blátt áfram: Af hverju eru menn svona foj útí Bandaríkjamenn?

Einn af fáum eindregnum bandamönnum Georges W. Bush Bandaríkjaforseta í Evrópu, spænski forsætisráðherrann Jose Maria Aznar, hefur kannski veitt nokkra innsýn í það í stuttu viðtali við Newsweek nú um síðustu helgi. Þar var Aznar meðal annars spurður hvort hann teldi vandann að hluta til sprottinn af því, að margir Evrópumenn litu á Bandaríkin sem einskonar fant sem böðlaðist áfram án tillits til annarra. Aznar svaraði:

"Ef þú ert að spyrja hvort ímyndir skipti máli þá tel ég svo vera. Evrópa er haldin einskonar vitsmunalegu stórmennskubrjálæði. Henni þykir ekki mikið koma til bandarískra forseta. Ef forsetinn er repúblíkani þykir enn minna varið í þá. Ef forsetinn er frá Texas og repúblíkani þykir jafnvel ennþá minna varið í þá."

Þeim sem ræða þetta mál eins og það snúist um fantaskap og hroka Bandaríkjamanna hefur ekki bara orðið á ofangreind rökvilla. Þeir eru í rauninni líka að nota sér neyð Íraka til að koma höggi á Bandaríkin. Og það hefur aldrei þótt sérlega fallegt að nota fólk.

Eftir Kristján G. Arngrímsson kga@mbl.is