REGLUBUNDIN slátrun á eldislaxi Sæsilfurs í Mjóafirði hefst í sumar í laxasláturhúsi Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þar sem ráðgert er að slátra 20-40 tonnum á hverjum virkum degi.

REGLUBUNDIN slátrun á eldislaxi Sæsilfurs í Mjóafirði hefst í sumar í laxasláturhúsi Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þar sem ráðgert er að slátra 20-40 tonnum á hverjum virkum degi. Að sögn Jóhannesar Pálssonar, framkvæmdastjóra landvinnslu Síldarvinnslunnar, er reiknað með því að slátra um 2.500 tonnum af eldislaxi á þessu ári.

Fer laxinn jafnt heilfrystur og flakaður á markað í Evrópu, einkum til Ítalíu, Frakklands, Danmerkur og Þýskalands, en þegar fram líða stundir er stefnt að viðskiptum í Bandaríkjunum með afurðirnar.

Jóhannes sýndi Morgunblaðsmönnum og fleira fjölmiðlafólki húsakynni Síldarvinnslunnar sl. föstudag en þar er öll aðstaða hin fullkomnasta og til fyrirmyndar. Laxasláturhúsið er hið fyrsta sinnar tegundar á landinu og mjög fullkomið. Þó að reglubundin slátrun eigi ekki að hefjast fyrr en í sumar sagði Jóhannes að stefnt væri að fyrstu eiginlegu slátruninni í næsta mánuði. Búið er að prufukeyra vélarnar þannig að þær standa klárar, með afkastagetu upp á 20 tonn á átta tímum.

Álíka mikið og þorskurinn

Sæsilfur hóf laxeldi í Mjóafirði árið 2001 og áformar að framleiða 8 þúsund tonn árlega. Sem fyrr segir verður 2.500 tonnum væntanlega slátrað á árinu en til samanburðar má geta þess að aflaheimildir Síldarvinnslunnar í þorski eru 2.600 tonn. Á næsta ári áformar Sæsilfur að slátra 4.000 tonnum af eldislaxi.

Þá hefur Samherji fengið heimild til að starfrækja laxeldisstöð í Reyðarfirði og er búist við að einhver starfsemi hefjist þar í ár. Framleiðslugeta þeirrar stöðvar verður 6.000 tonn á ári, miðað við full afköst. Þeim eldislaxi verður einnig slátrað hjá Síldarvinnslunni.

Samanlögð framleiðslugeta laxeldisstöðva Sæsilfurs og Samherja verður því um 14 þúsund tonn á árunum 2006-2007 og að sögn Smára Geirssonar, formanns bæjarráðs Fjarðabyggðar, má tala um laxeldið sem aðra stóriðju í sveitarfélaginu. Reiknað er með að laxeldið skapi 120 ný störf, ekki bara við framleiðslu og slátrun heldur einnig fóðurframleiðslu, umbúðapökkun og þvott á eldispokum.