ÞRJÁR tvítugar stúlkur hafa í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdar til greiðslu 30 þúsund króna sektar vegna fíkniefnabrots.

ÞRJÁR tvítugar stúlkur hafa í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdar til greiðslu 30 þúsund króna sektar vegna fíkniefnabrots. Stúlkurnar þrjár voru ákærðar fyrir að hafa 1,71 gramm af tóbaksblönduðu hassi í bifreið sem þær voru í og var stöðvuð á Ólafsfjarðarvegi í desember á liðnu ári. Einnig voru þær ákærðar fyrir að hafa skömmu áður í sameiningu neytt hassefna í bifreiðinni.

Tveir karlmenn hafa einnig verið dæmdir í Héraðsdómi Norðurlands eystra til greiðslu 37 þúsund króna sektar vegna fíkniefnabrots, þeir eru á þrítugsaldri. Einn karlmaður til, um þrítugt, var og dæmdur til að greiða 30 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa fíkniefni undir höndum. Karlarnir þrír voru handteknir í bíl á Akureyri síðastliðið sumar og hafði einn þeirra í fórum sínum 0,1 gramm af amfetamíni en hann hafði keypt 0,5 grömm af efninu í miðbæ Akureyrar. Annar hafði keypt 1 gramm af amfetamíni og var með 0,13 grömm af því á sér en sá þriðji var með 1,72 grömm af hassi í sínum fórum þegar hann var handtekinn. Efnið var gert upptækt.