Stella Steinþórsdóttir við flæðilínuna hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.
Stella Steinþórsdóttir við flæðilínuna hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.
STELLA Steinþórsdóttir, fiskverkakona hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað, stóð við flæðilínuna og snyrti þorskflök er Morgunblaðsmenn voru þar á ferð.

STELLA Steinþórsdóttir, fiskverkakona hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað, stóð við flæðilínuna og snyrti þorskflök er Morgunblaðsmenn voru þar á ferð. Fyrir dyrum stóð handflökun á lítilræði af laxi en Stella, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 1971, sagðist vera ein af fáum starfsmönnum sem kynni að handflaka fisk. "Þetta er að verða deyjandi list," sagði Stella um leið og hún sveiflaði til sín hverju þorskflakinu á fætur öðru og var eldsnögg að snyrta.

Ekki var úr vegi að spyrja Stellu álits á stærsta málinu á Austfjörðum þessa dagana, álverinu í Reyðarfirði, þar sem undirskrift var framundann daginn eftir. Hún sagðist ekki vera á mótinu álverinu sem slíku en hún hafði áhyggjur af því að konur nytu ekki þeirrar fjölgunar starfa sem sögð væri að fylgdi álverinu. Einnig hafði hún áhyggjur af orkuöfluninni. Þar hefði mátt fara aðrar leiðir.

"Eru álverin ekki að verða eins og frystihúsin þar sem örfáar hræður eru eftir og styðja á takka? Ég vil fá upp á borðið einhverjar nýjar hugmyndir um orkuöflun, þar virðist ríkja algjör hugmyndafátækt. Ég býst samt við að flestir hér í Neskaupstað og annars staðar í Fjarðabyggð bindi vonir við að álverið bæti eitthvað atvinnuástandið hérna," segir Stella sem hefur lengið staðið í framlínu verkalýðsmála í Norðfirði og verið trúnaðarmaður starfsmanna Síldarvinnslunnar.