Ringu er einfaldlega frábær hrollvekja.
Ringu er einfaldlega frábær hrollvekja.
Rakarinn / The Barber ***½ Frumleg og ófyrirsjáanleg um blóðþyrstan rakara sem villir á sér heimildir í fámennu þorpi. McDowell stendur sig frábærlega í hlutverki rakarans. Mynd sem kemur á óvart.(H.J.

Rakarinn / The Barber ***½

Frumleg og ófyrirsjáanleg um blóðþyrstan rakara sem villir á sér heimildir í fámennu þorpi. McDowell stendur sig frábærlega í hlutverki rakarans. Mynd sem kemur á óvart.(H.J.)

Krókódílamaðurinn / Crocodile Hunter ***

Bráðskemmtileg en umfram allt fróðleg dýragrínmynd fyrir alla fjölskylduna. Þær eru ekki á hverju strái. (S.G.)

Pinero***

Ógeðfellt en áhrifaríkt verk um árásargjarnan snilling sem á sér ekki viðreisnar von. Pinero er það meistaralega leikinn af Bratt að túlkunin ein er þess virði að leigja myndina. (S.V.)

Baran ***

Þroskasaga frá Íran er harla óvenjulegt efni á myndbandamarkaðnum og vel þegið.

Forvitnileg og framandi, tækifæri til að virða fyrir sér framandi mynd.(S.V.)

Varðliðar Texasríkis / Texas Rangers **½

Lítur prýðilega út en atburðarásina skortir kjöt á beinið. Úr verður forvitnilegur leikhópur og ætti útkoman að hugnast velflestum vestraunnendum. (S.V.)

Himinn og jörð að farast / Sky is Falling **½

Ein af þessum litlu myndum sem leyna á sér, byrja e.t.v. ekki of vel, en luma á fínum persónum og óvenjulegri atburðarás. Bráðskondin mynd á köflum, sem þó skilur mátulega lítið eftir sig. (H.J.)

Græni drekinn / Green Dragon ***

Lágstemmd og vel gerð mynd um hlið á Víetnamstríðinu sem ekki hefur verið ofarlega á baugi í þeim fjölmörgu myndum sem gerðar hafa verið um þennan afdrifaríka viðburð í sögunni.

Sjónum er beint að þeim þúsundum Víetnama sem flúðu heimaland sitt og hlutu hæli í Bandaríkjunum. (H.J.)

Maðurinn frá Elysian Fields / The Man from Elysian Fields ***

Tilfinningaflækja miðaldra karlmanns, sem neyðist til að horfast í augu við að hafa ekki upp á annað að bjóða en líkama sinn, er sannfærandi, einkum vegna frábærrar frammistöðu Andy Garcia og Micks Jaggers. (S.G.)

Fágætir fuglar / Rare Birds **½

Ljúf og áreynslulítil dægurfluga eftir Vestur-Íslendinginn Sturlu Gunnarsson, kannski bara helst til áreynslulítil. (S.G.)

Fyrstu hjólabrettakapparnir / Dogtown and Z-Boys ***

Stórfróðleg mynd um uppruna hjólabrettaiðkunar og lífsstílsins í kringum hana. Í senn fyrir áhugamenn og þá sem hvorki þekkja haus né sporð á fyrirbrigðinu. (S.G.)

Níu drottningar / Nueve reinas /Nine Queens***

Spennandi, argentínsk glæpamynd, sannkallað hnossgæti öllum þeim sem hafa gaman af vel gerðum og óvenjulegum myndum. (S.V.)

Handan sólar / Abril Despedaçado/ Behind the Sun ***½

Þessi hæggenga en einkar ljóðræna mynd tekur verulega á áhorfandann, er glæsilega úr garði gerð, kröftug, sjóðheit og ögrandi. Alls ekki auðveld á að horfa en afskaplega gefandi. (S.G.)

Lítil leyndarmál / Little Secrets ***

Fínasta fjölskyldumynd, bæði uppbyggjandi og skemmtileg, sem hefur að geyma þann boðskap að leyndarmál leiði sjaldan gott af sér.(S.G.)

Bagdad í beinni / Live from Baghdad ***½

Trúverðug og óvenju fagmannleg mynd sem gerist í Persaflóastríðinu 1990 og fjallar um álagið á fréttamönnum sem voru í borginni. Góður leikur gerir og myndina með eftirminnilegri myndum af þessum toga. (S.V.)

Hringurinn / Ringu ***½

Japanska frumútgáfan af Hringnum er einfaldlega frábær hrollvekja. Leigðu hana - ef þú þorir! (S.G.)

Sólskinsríkið / Sunshine State ***

John Sayles er með vandaðri kvikmyndagerðarmönnum sem um getur í dag og það sýnir hann með þessari síðustu mynd sinni. Ekkert meistaraverk en samt betra en flest annað á leigunni í dag. (S.G.)