RÍKISKAUP hafa auglýst útboð á byggingu snjóflóðavarnargarða á Siglufirði og Seyðisfirði fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Siglufjarðarbæjar.

RÍKISKAUP hafa auglýst útboð á byggingu snjóflóðavarnargarða á Siglufirði og Seyðisfirði fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Siglufjarðarbæjar. Á heimasíðu Ríkiskaupa kemur fram, að á Seyðisfirði sé gert ráð fyrir að byggja tvo garða, 200 metra langan leiðigarð og 400 metra þvergarð. Verði þeir um 20 metra háir og liggja uppi á brún undir Bjólfinum í Seyðisfirði en svæðið er í um 650 metra hæð.

Á Siglufirði verða byggðir fimm þvergarðar og einn leiðigarður. Þvergarðarnir verða samtals um 1.700 metra langir. Á Siglufirði er gert ráð fyrir að byggt verði í þremur áföngum. Fyrst verða nyrstu garðarnir reistir og skal þeim lokið sumarið 2004. Þá hefjast framkvæmdir við upptakastoðvirki í Gróuskarðshnjúki sem reyndar eru ekki hluti af útboðsverkinu en loks verður miðgarðurinn reistur fyrir lok sumars 2005 en byggingu þess syðsta á að vera lokið haustið 2006.