Grindvíkingum hefur fjölgað um 1-2% á undanförnum árum.
Grindvíkingum hefur fjölgað um 1-2% á undanförnum árum.
GATNARGERÐARGJÖLD í Grindavík hækka um fjórðung 1. júlí en ekki 1. júní eins og sagði í frétt Morgunblaðsins fyrir helgina. Að sögn Ólafs Arnar Ólafssonar bæjarstjóra hafa gjöldin lengi verið mun lægri en í nágrannasveitarfélögunum.

GATNARGERÐARGJÖLD í Grindavík hækka um fjórðung 1. júlí en ekki 1. júní eins og sagði í frétt Morgunblaðsins fyrir helgina.

Að sögn Ólafs Arnar Ólafssonar bæjarstjóra hafa gjöldin lengi verið mun lægri en í nágrannasveitarfélögunum. "Í Vallarhverfi, nýjasta hverfinu sem við erum að byggja upp, voru gatnagerðargjöldin um 55% af kostnaði við gerð hverfisins þannig að við greiddum verulega með þessu. En þannig á það auðvitað ekki að vera og þess vegna var ákveðið að hækka gjöldin. En það er rétt að taka fram að jafnvel eftir hækkunina fáum við ekki nema um 80% af kostnaðinum við gerð hverfanna."

Vallarhverfi er að verða fullbyggt en á undanförnum þremur árum hefur verið úthlutað 137 lóðum til nýbygginga í bæjarfélaginu. Í febrúar var úthlutað 14 lóðum fyrir um 38 íbúðir í Lautarhverfi.

Grindvíkingum fjölgar jafnt og þétt

Aðspurður segist Ólafur ekki vita til annars en fasteignamarkaðurinn í Grindavík hafi verið nokkuð líflegur. "Það hafa nánast öll hús selst og nýju húsin sem hafa verið í byggingu hafa yfirleitt selst nokkuð fljótt og vel."

Ólafur segir Grindvíkingum hafa fjölgað um 1-2% á undanförnum árum eða um 40-50 manns og þeir séu nú tæplega 2.400 manns. "Atvinnuástand hefur verið gott hér og er raunar enn. Við höfum verið með 7-20 manns á atvinnuleysisskrá að undanförnu og núna eru líklega ekki nema 10-12 á skrá sem verður að teljast harla gott miðað við atvinnuástandið í landinu almennt."

Ólafur segir það algengt að fólk í Grindavík sæki vinnu annað, t.d. á Keflavíkurvöll, í Hafnarfjörð eða Reykjavík enda ekki um langan veg að fara "Ég veit reyndar af einum sem vinnur úti í Svíþjóð en býr hérna í Grindavík og flýgur á milli hálfsmánaðarlega."