Íbúi í Bagdad býr sig undir stríð og gerir skotgröf við hús sitt.
Íbúi í Bagdad býr sig undir stríð og gerir skotgröf við hús sitt.
EF íraska stjórnin kemst í heilu lagi frá fyrstu orrustunni í Persaflóastríðinu hinu síðara getur svo farið að bandarískir hermenn þurfi að berjast hús úr húsi við hættulegar aðstæður í Bagdad, og óbreyttir borgarar lendi í kúlnahríðinni.

EF íraska stjórnin kemst í heilu lagi frá fyrstu orrustunni í Persaflóastríðinu hinu síðara getur svo farið að bandarískir hermenn þurfi að berjast hús úr húsi við hættulegar aðstæður í Bagdad, og óbreyttir borgarar lendi í kúlnahríðinni. Slíkt væri það versta sem Bandaríkjamenn gætu lent í, en um leið væri það besta tækifæri Saddams Husseins Íraksforseta til að breyta innrás ofureflis óvinaliðs í banvænt kviksyndi og pólitíska martröð fyrir George W. Bush Bandaríkjaforseta.

Sé svo blandað saman við þetta atlögum hryðjuverkamanna að baki víglínunnar, hugsanlegum árásum með efna- og lífefnavopnum og óbreyttum borgurum sem notaðir eru sem skildir fær maður tilfinningu fyrir þeim martröðum sem fylgt geta því sem sérfræðingar hafa kallað "ósamhverf stríðsátök".

Segjast vel undirbúnir

Þrátt fyrir að mikil hætta sé á að bandarískir hermenn og óbreyttir borgarar falli segja embættismenn í bandaríska hernum að bandaríski heraflinn sé vel þjálfaður og tilbúinn til átaka í Bagdad og öðrum íröskum borgum. Muni þeir koma í veg fyrir að íraska stjórnin geti leitað þar skjóls.

"Ef maður ætlar að afvopna þjóð þarf að afvopna hvarvetna. Því er óhjákvæmilegt annað en að afvopnun fari fram í Bagdad líka," sagði embættismaður í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, sem ekki vildi láta nafns síns getið.

Höfuðborgin er sá staður í Írak sem best er varinn, umkringd einhverjum þéttustu loftvörnum í heiminum og gætt af best þjálfuðu hermönnum Saddams. Umhverfis borgina hafa verið gerðar skotgrafir sem hægt er að fylla af brennandi olíu. Búist er við að íraskar hersveitir taki sér stöðu nærri moskum og skólum og í íbúðahverfum.

En jafnvel áður en bandarískir hermenn koma að borgarhliðum Bagdad þurfa þeir ef til vill að gæta sín á árásum með efna- og lífefnavopnum, og mæta flóðbylgju flóttafólks. Stjórnarhermenn sem hafa bækistöðvar suður af borginni kunna líka að reyna að tefja framrás Bandaríkjamanna, en myndu sæta gífurlegum loftárásum geri þeir það.

Mikið lið í Bagdad

Borgin sjálf er morandi í sérsveitarliðum sem valdir hafa verið einmitt vegna dyggs stuðnings við Saddam. Aðalherinn sem gætir Bagdad og ríkisstjórnarinnar fyrir uppreisn eða árás er sérsveit ríkishersins - um 15 þúsund hermenn í fjórum árásarherdeildum og sérþjálfaðir í borgarhernaði. Önnur sérsveit gætir úthverfa borgarinnar. Og þriðja sérsveitin hefur verið kölluð norðan úr landi og hefur nú bækistöð nær Bagdad, sem fréttaskýrendur segja vera til marks um aukinn vígbúnað umhverfis höfuðborgina og Tikrit, heimabæ Saddams.

Svona öryggissveitir og íraska leyniþjónustan hafa alls á að skipa um 25 þúsund manns í Bagdad. En Saddam hefur fleiri sérþjálfaðar hersveitir á sínum snærum, svonefnda fedayeen, sem er 15 þúsund manna her undir stjórn sonar Saddams, Udays, og er þessum mannskap einnig beitt til að kæfa hvers konar uppreisnir og andstöðu sem upp kann að koma meðal almennings á þéttbýlum svæðum.

Írösk yfirvöld hafa komið höndum yfir breska og bandaríska einkennisbúninga, að því er talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins segir, og varaði hann við því að Írakar myndu slátra óbreyttum borgurum og kenna innrásarhernum um.

Síðan í seinni heimsstyrjöld hefur bandaríski herinn forðast að berjast í borgum og haldið sig fjarri þéttbýlissvæðum sem auðvelt er að verja en erfitt að hertaka. William Wallace undirhershöfðingi og yfirmaður bandarísku herdeildarinnar í Kúveit sagði við The New York Times fyrir skömmu að menn myndu ekkert vera að flýta sér til borgarinnar.

Hann útlistaði hvernig ráðist yrði gegn mikilvægum skotmörkum í Bagdad með flugvélum, þyrlum og atlögum léttra herdeilda inn í borgina. "Ég á við að gerðar verði árásir á þá staði sem stjórnvöld þurfa á að halda en að farið verði mjög varlega svo að ekki muni margir Bandaríkjamenn falla í bardögum hús úr húsi, líkt og var algengt í seinni heimsstyrjöld," sagði Wallace.

Hert þjálfun í borgarátökum

Bandaríski herinn hefur hert þjálfun í borgarátökum og haldið æfingar í tilbúnum borgum. Áætlun Bandaríkjamanna hljóðar upp á að einangra óvinina, króa þá af bakvið "þagnarmúr" með því að trufla fjarskipti og koma síðan í veg fyrir að þeir fái liðsauka og stuðning, segja bandarískir herforingjar.

En forskot Bandaríkjamanna í hátæknisamskiptabúnaði, leyniþjónustu og nákvæmum vopnabúnaði nýtist ekki sem skyldi í borgarumhverfi, sem er vilhallt þeim sem verjast þar. Árið 1998 króuðust 18 bandarískir hermenn af og voru drepnir í Mogadishu er misheppnuð tilraun var gerð til að handtaka sómalskan stríðsherra.

"Hvers vegna ætti nokkur maður að vilja fara til Bagdad og berjast í borginni?" spyr William Odom, fyrrverandi herforingi. "Það eina sem þarf að gera er að umkringja staðinn, skrúfa fyrir rafmagn og vatn og bíða."

Aðrir telja að langdregið umsátur geti reynst hættulegt. "Ég held að það væri óráðlegt að bíða þarna til eilífðarnóns og láta Saddam einráðan um hversu marga óbreytta borgara hann drepur, eða hversu lengi hann er tilbúinn til að bíða eða hvers konar veðri hann lætur okkur berjast í eða hvers konar viðbrögð hann getur fengið frá aröbum."

Washington. AFP.