[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Annað tilraunakvöld Músíktilrauna. Keppnissveitir voru Texas Sound, Betlehem, X-Factor, Fendrix, Marshmallows, Sálarkraftur, Doctuz, Alius, Tjipp Schammel Achmed og Fjöllistahópurinn Mujaffa. Haldið í Tónabæ fimmtudagskvöldið 13. mars.

ANNAÐ tilraunakvöld Músíktilrauna var haldið sl. fimmtudagskvöld, en þá kepptu tíu hljómsveitir víða að um sæti í úrslitum. Þetta var mikið rafgítarkvöld, því alls fengu sautján rafgítarar að hljóma og margir allhátt stilltir; rokkið snýr aftur með látum.

Hljómsveitin Texas Sound var fyrst á svið og fór vel af stað með góðu rokklagi sem hefði þó orðið enn betra ef aðeins hefði verið slegið í klárinn. Annað lagið var það besta sem sveitin lék og meira að segja léttblúsaður blær á því, fínt lag. Þriðja lagið gekk aftur á móti ekki eins vel upp, en í því voru góðir gítarfrasasprettir.

Betlehem kom frá rokkbænum Húsavík og var heimabyggð sinni til sóma, kröftugt og skemmtilegt rokkband með fullt af fínum frösum og skemmtilegri rokkkeyrslu; gaman að heyra í mönnum sem kunna að hækka í gítar.

Það er mikið á seyði í sunnlensku rokki því þrjár hljómsveitir frá Hellu og Hvolsvelli taka þátt í tilraununum að þessu sinni. Sl. fimmtudagskvöld var komið að X-Factor sem stóð sig með mikilli prýði. Hljómsveitin lék Korn-kennt rokk með ýmsum tilbrigðum og sumt sem frá henni heyrðist var með því besta sem í boði var þetta kvöld. Heildin var aftur á móti ekki nógu sterk, erfitt að greina samhengið í lögunum þrátt fyrir fantafína keyrslukafla. Mjög skemmtileg sveit og sérstaklega var trommuleikarinn traustur.

Þegar hér var komið sögu var gítarrokkið í algleymingi og enn bætti um betur þegar Fendrix-menn stigu á svið með þrjá gítarleikara. Þeir keyrðu á tveimur hryngígjum en skreyttu síðan smekklega með einleiksflúri þess þriðja sem kom vel út. Lögin voru líka grípandi og vel samin, sérstaklega þriðja lagið.

Það vantaði ekki gítarleikara í Marshmallows, en heldur voru þeir á léttari nótum en það sem á undan var komið. Fyrsta lagið var mjög í ætt við bandaríkt menntaskólarokk, semsé popp frá sjöunda áratugnum spilað í gegnum skælifetla. Önnur lög voru með grípandi léttum laglínum.

Sálarkraftur stakk skemmtilega í stúf við það sem á undan var komið, lögin ekki eins þéttofin, minnti á köflum á þá ágætu sveit Karate, þótt rokkið hafi verið heldur meira. Efnileg hljómsveit og þá sérstaklega gítarleikarinn; hann á eftir að láta í sér heyra í framtíðinni.

Enn eitt afbrigði af gítarrokki var í boði Doctuz, nú voru áheyrendur komnir á indí-slóðir þar sem laglínur byggjast á sífelldri klifun og hægri stígandi. Gítarleikur var skemmtilegur og þeir félagar í framlínunni náðu mjög vel saman. Trommuleikarinn var líka traustur.

Alius byrjaði vel, var þétt og vel undir tilraunirnar búin, en á eftir að hrista af sér áhrifavalda. Annað lag sveitarinnar var með mergjaðri stríðsyfirlýsingu og hefði verið mjög áhrifaríkt ef þeir hefðu verið eilítið frumlegri.

Heldur gekk Tjipp Schammel Achmed illa að komast af stað, vandræði með tæki og tól, en þegar þeir loksins komust í gang var hin besta skemmtun á að hlýða. Fyrsta lagið var frumleg samsuða og það annað bráðskemmtilegt rokkreggí. Lokalag sveitarinnar var svo kraftmikið rokk með skemmtilega pólitískum texta.

Lokaorð kvöldsins átti Fjöllistahópurinn Mujaffa, sem sýndi reyndar ekki aðrar listir en tónlist, að þessu sinni í það minnsta. Hvað sem því líður þá var skemmtileg tilbreyting að heyra tónlist flutta á lágu nótunum og bráðvel kom út smekklegt samspil á klarínett og trompet. Sérstaklega fór klarínettið á kostum í einleikskafla í síðasta laginu. Fyrsta lag Fjöllistahólpins var mjög gott, lágstemmt lag og vel flutt. Annað lagið var ekki síðra, en þrátt fyrir góða spretti hjá trompet, klarínett og hljómborði í síðasta laginu komst það aldrei almennilega í gang. Gott samt.

Mjótt var á munum í atkvæðagreiðslu áheyrenda en Fendrix hafði þó sigur. Dómnefnd vildi síðan sjá Húsvíkingana í Betlehem í úrslitum og einnig hleypti hún Doctuz áfram. Næsta Músíktilraunakvöld verður síðan í Hinu húsinu næstkomandi fimmtudag.

Árni Matthíasson