Fjöldi fólks var á skíðum í Hlíðarfjalli um helgina í fallegu veðri og góðu skíðafæri. Eins og sést á myndinni er ekki mikill snjór í fjallinu en aðstæður engu að síður alveg ágætar.
Fjöldi fólks var á skíðum í Hlíðarfjalli um helgina í fallegu veðri og góðu skíðafæri. Eins og sést á myndinni er ekki mikill snjór í fjallinu en aðstæður engu að síður alveg ágætar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SAMNINGUR um rekstur og uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri var undirritaður í flugstöðinni í gærmorgun af þeim Tómasi Inga Olrich menntamálaráðherra og Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra.

SAMNINGUR um rekstur og uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri var undirritaður í flugstöðinni í gærmorgun af þeim Tómasi Inga Olrich menntamálaráðherra og Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra. Samningurinn gildir til ársins 2008 en tilgangur hans er að styðja við uppbyggingu mannvirkja á vegum miðstöðvarinnar í í því skyni að efla iðkun vetraríþrótta fyrir almenning og íþróttafólk. Framkvæmdafé á samningstímanum er um 360 milljónir króna, þar af er framlag ríkissjóðs 180 milljónir króna. Meðal verkefna sem ráðist verður í á næstu árum er uppsetning nýrrar lyftu í Strýtu, ný togbraut verður sett upp í Hjallabraut og eins verður nýrri barnalyftu komið upp. Flóðlýsing verður aukin, aðbúnaður fyrir vetraríþróttir fatlaðra bættur, sem og aðstaða fyrir brettafólk og vélsleðamenn. Loks verður aðstaða til vetraríþrótta í Kjarnaskógi bætt og tækjakostur í Skautahöllinni aukinn.

Samningur um rekstur Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands var einnig endurnýjaður við þetta tækifæri, en menntamálaráðuneyti og Akureyrarbær standa sameiginlega að rekstri miðstöðvarinnar.

Loks var undirrituð viljayfirlýsing þess efnis að á samningstímanum verði unnið að stofnun vetraríþróttabrautar við Verkmenntaskólann á Akureyri, sem tilraun til þriggja ára. og er stefnt að því að starfsemi hennar hefjist næsta haust.

Uppbygging sem nýtist landinu öllu

Menntamálaráðherra sagði fjölda ferðamanna leggja leið sína í höfuðstað Norðurlands yfir vetrartímann til að stunda skíði í Hlíðarfjalli og njóta þeirrar menningar sem bærinn hefði upp á að bjóða. Uppbygging undanfarinna ára hefði því ekki einungis nýst heimamönnum og nágrannabyggðarlögum heldur landinu öllu. Uppbygging vetraríþróttamiðstöðvarinnar á Akureyri yrði því raunverulegur valkostur fyrir unnendur vetraríþrótta í samanburði við alþjóðlega skíðastaði.

Menntamálaráðherra sagði það einnig ánægjulegt að skrifa undir viljayfirlýsingu um að stefna að stofnun vetraríþróttabrautar við VMA. "Ég er þess fullviss að þörf er fyrir slíka námsbraut og tíminn mun leiða í ljós að hér hefur verið stigið stórt skref í þjálfun ungra afreksmanna í vetraríþróttum sem mun skila okkur lengra á alþjóðavettvangi."

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri kvaðst þess fullviss að samningurinn um Vetraríþróttamiðstöðina, rekstur hennar og uppbyggingu myndi skila Akureyri fram á veginn. Miðstöðin þjónaði fleirum en Akureyringum og Eyfirðingum og með aukinni uppbyggingu yrði hún ferðamannaparadís sem þjónaði landinu öllu.