"VIÐ höfum upplýst flugfélögin og starfsfólk á Keflavíkurflugvelli um vandamál sem kynnu að koma upp og hvernig réttast sé að bregðast við þeim.

"VIÐ höfum upplýst flugfélögin og starfsfólk á Keflavíkurflugvelli um vandamál sem kynnu að koma upp og hvernig réttast sé að bregðast við þeim. Síðan er Landspítalinn með ákveðinn viðbúnað til að taka á móti sjúklingum í einangrunaraðstöðu," sagði Haraldur Briem sóttvarnalæknir um viðbrögð landlæknisembættisins við viðvörun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar vegna heilkennis alvarlegrar bráðrar lungnabólgu.

Í gær vissi Haraldur um 450 manns sem höfðu greinst með sjúkdóminn og af þeim höfðu átta látist sem sé innan við 2% dánartíðni. Þær tölur taki ugglaust breytingum.

Hann segir ekki vitað hvað valdi þessum faraldri og ekki berast upplýsingar um meiriháttar útbreiðslu sjúkdómsins. Einkennin minna á inflúensu; hár hiti, þreyta, hósti, tíður andardráttur eða andnauð. Þar sem einkennin séu almenn þarf að tengja sjúkling við sýkingarsvæði til þess að meðhöndla hann samkvæmt viðbúnaðaráætlun.

Lungnabólgufaraldurinn geisar aðallega í Suðaustur-Asíu en hugsanlega hafa sjúklingar greinst með einkenni í Evrópu og Kanada.

Ferðalög ekki takmörkuð

Haraldur segir engin tilmæli hafa verið gefin út í þá veru að takmarka ferðalög fólks. Flestir hafi smitast á spítölum þar sem nálægð við smitbera sé mikil. Ekki sé mikið um hópsýkingar og því virðist þetta ekki vera bráðsmitandi. Hann segir flugvélar ekki eins hættulegar og menn haldi hvað varðar smithættu þar sem loftræstikerfi þeirra séu þannig úr garði gerð að þau dreifi ekki smiti meðal farþega. Byggist það á loftflæði um vélina, síum og loftskiptum meðan á flugi stendur.

"Við fylgjumst með þróuninni og hvaða frekari tilmæli koma. Við erum vakandi fyrir þessu og á viðbragðsstigi," segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir flugfélagið vinna í samráði við landlæknisembættið. "Við höfum fengið leiðsögn þaðan og sent leiðbeiningar til áhafna okkar hvernig bregðast ætti við yrði vart við einkenni sjúkdómsins."