BJÖRN Snæbjörnsson, formaður verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju, sagði að gjaldþrot Íslandsfugls í Dalvíkurbyggð væri mikið áfall en lang flestir 45 starfsmenn fyrirtækisins eru félagsmenn í Einingu-Iðju.

BJÖRN Snæbjörnsson, formaður verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju, sagði að gjaldþrot Íslandsfugls í Dalvíkurbyggð væri mikið áfall en lang flestir 45 starfsmenn fyrirtækisins eru félagsmenn í Einingu-Iðju. "Þar fyrir utan hefur atvinnuástand á Dalvík ekki verið verra í mörg ár en þar eru rúmlega 30 manns á atvinnuleysisskrá í dag."

Björn sagði að atvinnuástandið á Dalvík hefði allajafna verið gott og frekar vöntun á fólki en hitt. Hann sagði að ef þetta yrði niðurstaðan með Íslandsfugl og fyrirtækið ekki reist við aftur, gæti atvinnulausum í bæjarfélaginu fjölgað upp í 60-70 manns.

"Það er þá fjöldi á atvinnuleysisskránni sem menn hafa ekki séð áður í sveitarfélaginu, nema þá í stoppi vegna verkfalla sjómanna. Þetta er því mikið áfall, því þarna eru tæplega 10% félagsmanna okkar á Dalvík að missa vinnuna." Einnig hafa nokkrir Akureyringar verið í vinnu hjá Íslandsfugli. Björn sagði að starfsfólk hefði verið í vinnu í gær mánudag og í dag þriðjudag, við að bjarga verðmætum - en með framhaldið væri mikil óvissa.

Atvinnuástandið í Eyjafirði slæmt

Björn sagði að atvinnuástandið í Eyjafirði væri almennt mjög slæmt og aðeins Grenivík stæði upp úr en þar væri frekar vöntun á fólki. Um síðustu mánaðamót voru rúmlega 350 manns á atvinnuleysisskrá á Akureyri og hafði fjölgað um 17 frá mánuðinum á undan og um rúmlega 50 frá sama tíma í fyrra. Í Dalvíkurbyggð og Ólafsfirði voru rúmlega 30 manns á atvinnuleysisskrá um síðustu mánaðamót og hafði fjölgað á skránni á báðum stöðum frá mánuðinum á undan. Hins vegar eru mun færri á skrá í Ólafsfirði nú en á sama tíma í fyrra og munar þar rúmlega 20 manns.