Pär Stenbäck, fyrrverandi utanríkisráðherra Finnlands, telur líkur á samstjórn Miðflokks og jafnaðarmanna.
Pär Stenbäck, fyrrverandi utanríkisráðherra Finnlands, telur líkur á samstjórn Miðflokks og jafnaðarmanna.
Pär Stenbäck, fyrrverandi utanríkisráðherra Finnlands, var kosningaskýrandi á kosningavöku finnska sendiráðsins í fyrrakvöld. Ólafur Þ. Stephensen ræddi við hann um úrslit kosninganna.

PÄR Stenbäck, fyrrverandi utanríkisráðherra Finnlands, er staddur hér á landi og var kosningaskýrandi á kosningavöku finnska sendiráðsins sl. sunnudagskvöld. Hann segir að þótt Paavo Lipponen, leiðtogi jafnaðarmanna og forsætisráðherra, kunni að missa stjórnarforystuna til Anneli Jäätteenmäki, leiðtoga Miðflokksins, verði áhrif hans væntanlega mikil áfram, ekki sízt á Evrópu- og utanríkisstefnu Finnlands.

Í fráfarandi ríkisstjórn hafa jafnaðarmenn og hægrimenn (Sameiningarflokkurinn) verið stóru flokkarnir, en auk þeirra eiga Vinstrabandalagið og Sænski þjóðarflokkurinn aðild að stjórninni. Sameiningarflokkurinn tapaði mestu í kosningunum, missti sex þingsæti af 46. Jafnaðarmenn bættu við sig tveimur þingmönnum og hafa nú 53, en Miðflokkurinn bætti við sig sjö og er með 55 þingmenn. Sænska þjóðarflokknum gekk illa, hann missti þrjú þingsæti af sínum ellefu en Vinstrabandalagið stóð nokkurn veginn í stað.

Samstjórn Miðflokks og jafnaðarmanna líklegust

Stenbäck segir að langlíklegasta stjórnarmunstrið sé samstjórn Miðflokksins og jafnaðarmanna, hugsanlega með þátttöku minni flokka. "Báðir flokkarnir bættu við sig og eru nánast jafnir. Það er ekki hægt að segja að annar þeirra sé afgerandi sigurvegari. Ég er sannfærður um að samstjórn þeirra ætti miklu fylgi að fagna hjá kjósendum," segir Stenbäck.

Hann segir því líklegast að Miðflokkurinn komi inn í ríkisstjórn í stað Sameiningarflokksins. Hjá síðarnefnda flokknum standi leiðtogaskipti væntanlega fyrir dyrum í kjölfar ósigursins og ólíklegt sé að flokkurinn, sem tapaði kosningunum, verði áfram í stjórn, en sá, sem mestu bætti við sig, utan stjórnar.

Stenbäck bendir á að Paavo Lipponen hafi sagt að hann taki ekki þátt í ríkisstjórn, þar sem Anneli Jäätteenmäki verði forsætisráðherra, en í pólitík sé ekkert ómögulegt og forsætisráðherrann kunni að finna sér leið út úr þeim ógöngum, sem hann hafi komið sér í með þeirri yfirlýsingu.

"Það eru tveir möguleikar. Annars vegar að Jäätteenmäki verði forsætisráðherra, sem væri eftir bókinni þar sem hún hefur tveimur þingmönnum fleira, og Lipponen eða einhver annar jafnaðarmaður yrði varaforsætisráðherra og utanríkisráðherra eða eitthvað slíkt. Hinn möguleikinn er að Jäätteenmäki telji það fórnandi til að ljúka átta ára veru í stjórnarandstöðu að láta Lipponen forsætisráðherraembættið eftir áfram. Hann er vinsælasta forsætisráðherraefnið; skoðanakannanir sýna að 40% Finna vilja helzt hafa hann áfram í embætti en tæplega 20% vilja Jäätteenmäki, sem þar að auki hefur minni reynslu. Jäättenmääki væri þá komin í sterka stöðu til að semja um önnur áhrifamikil ráðherraembætti, til dæmis utanríkis- og fjármálaráðherrann."

Stenbäck segir erfitt að segja til um hvort miklar breytingar verði á stjórnarstefnunni ef Miðflokkurinn kemur í stað hægrimanna. Hann bendir á að í síðasta stjórnarsáttmála hafi ekki verið mikið um skýra stefnumörkun og finnskar ríkisstjórnir taki yfirleitt á hverju máli eins og það komi fyrir, án þess að hugmyndafræði þvælist of mikið fyrir fólki.

Hann bendir þó á að líklegt sé að opinber afskipti aukist með stjórnarþátttöku Miðflokksins. Þannig liggi stefna flokksins í atvinnumálum, sem eru eitt stærsta vandamálið í Finnlandi þessa dagana, nær stefnu jafnaðarmanna, sem vilja efla atvinnulífið með beinum fjárframlögum, en stefnu hægrimanna, sem leggja áherzlu á skattalækkanir og lækkun gjalda á atvinnurekendur. Miðflokkurinn sé þó flokkur smáfyrirtækja og muni sennilega vilja ívilna þeim með einhverjum hætti.

Þá sé Miðflokkurinn jafnvel enn hallari undir ríkislausnir í heilbrigðismálum en jafnaðarmenn, ekki sízt þar sem flokkurinn telji einkarekstur heilbrigðisþjónustu, sem hægrimenn styðja og jafnaðarmenn einnig í einhverjum mæli, ekki ganga upp í hinum dreifðu byggðum þar sem flokkurinn á mest fylgi.

Spurningin um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) var ekki rædd mikið í kosningabaráttunni. Flokkarnir eru þó sammála um að hún komi upp í tengslum við endurskoðun öryggismálastefnu landsins á næsta ári. "Þetta verður ekki mál, sem stjórnarmyndunarviðræður stranda á," segir Stenbäck. "Menn munu komast að samkomulagi um að halda málinu áfram opnu og útiloka enga möguleika, en ekki kveða á um að taka þurfi ákvörðun í málinu. Afstaða Svíþjóðar skiptir líka máli og ekkert bendir til að Svíar snúi sér að ákvörðun í NATO-málinu fyrr en þeir eru búnir að afgreiða spurninguna um aðild sína að evrópska myntbandalaginu. Það ríkir hins vegar samstaða um að ef til þess kemur, verði Svíþjóð og Finnland að hafa samflot inn í NATO."

Stenbäck segir að í Evrópumálum sé ekki mikill munur á stefnu flokkanna, en einstakir stjórnmálamenn hafi mjög eindregna afstöðu, ekki sízt Paavo Lipponen, sem hefur lagt ofuráherzlu á þátttöku Finnlands í kjarna Evrópusamstarfsins og að styrkja yfirþjóðlegar stofnanir ESB, sem muni koma smáríkjum til góða. "Í hvaða stöðu sem Lipponen verður, hvort heldur hann verður forsætisráðherra, utanríkisráðherra, Evrópumálaráðherra eða eitthvað annað, mun hann áfram hafa mikil áhrif. Enginn stenzt honum snúning," segir Stenbäck.

Sænski þjóðarflokkurinn í tilvistarkreppu

Stenbäck tilheyrir Sænska þjóðarflokknum og hefur áfram mikil áhrif innan flokksins, þótt hann hafi hætt beinni stjórnmálaþátttöku 1985. Hann er áhyggjufullur yfir slæmu gengi sinna manna. "Ef það væru pólitískar skýringar á því, t.d. léleg forysta, slæm kosningabarátta eða eitthvað slíkt, væri þetta einfaldara. En slíkar skýringar duga ekki. Þetta snýst um tilvistargrundvöll flokksins," segir hann.

Stenbäck bendir á að tunga og sjálfsvitund virðist skipta minna máli en áður, ekki sízt hjá ungu fólki og þá helzt þeim tvítyngdu, sem eigi bæði finnsku- og sænskumælandi foreldra. "Við verðum að takast á við þetta vandamál, koma flokknum á nýjan grundvöll og höfða til ungs fólks. Það er engin lausn að draga sig t.d. út úr ríkisstjórnarsamstarfinu."

olafur@mbl.is