Bæjarráð Akraneskaupstaðar hefur skorað á dómsmálaráðherra að banna bensín-, olíu og gasflutninga um Hvalfjarðargöng.
Bæjarráð Akraneskaupstaðar hefur skorað á dómsmálaráðherra að banna bensín-, olíu og gasflutninga um Hvalfjarðargöng.
BÆJARRÁÐ Akraneskaupstaðar hefur skorað á dómsmálaráðherra að banna bensín-, olíu og gasflutninga um Hvalfjarðargöng. Þetta er í þriðja sinn sem bæjarráð ályktar um málið og segir Gísli Gíslason bæjarstjóri að sama viðhorf sé uppi í Borgarbyggð.

BÆJARRÁÐ Akraneskaupstaðar hefur skorað á dómsmálaráðherra að banna bensín-, olíu og gasflutninga um Hvalfjarðargöng. Þetta er í þriðja sinn sem bæjarráð ályktar um málið og segir Gísli Gíslason bæjarstjóri að sama viðhorf sé uppi í Borgarbyggð. Í dag eru eldsneytisflutningar um göngin bannaðir frá hádegi á föstudegi til hádegis á mánudegi og aðra frídaga þegar mikið er um ferðalög.

"Það er sjónarmið þessara sveitarstjórna að það sé skynsamlegra að flytja olíu og bensín með öðrum hætti en í gegnum göngin. Við höfum líka bent á að það hefur ekki verið bannað að flytja gas í gegnum göngin þótt það hafi ekki ekki verið framkvæmt af olíufélögunum," segir Gísli. Nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins hefur skilað áliti um málið. Vill hún takmarka eldsneytisflutninga enn frekar, en leyfa þá áfram á ákveðnum tímum. Gísli segir að Akraneskaupstaður og Borgarbyggð vilji þó ganga enn lengra og banna flutningana algjörlega.

"Bílar sem olíufélögin nota í þessa flutninga eru í fínu lagi og öryggisatriða er gætt í hvívetna. Hins vegar benda menn á að afleiðingar slyss væru langt yfir því sem menn fá ráðið við. Ætli það sé ekki skynsamlegra að gefa ekki færi á því að slíkt gæti komið upp," segir Gísli og bendir á að færi eitthvað úrskeiðis hjá flutningabíl með eldsneytisfarm í göngunum gæti það haft hræðilegar afleiðingar. "Enginn mannlegur máttur gæti grípið mikið til varna ef eitthvað slíkt gerðist og afleiðingarnar yrðu miklar."

Hann segir að til þessa hafi bæjaryfirvöld ekki fengið mikil viðbrögð frá dómsmálaráðuneyti við fyrri áskorunum um að banna eldsneytisflutninga. "Við höfum vitað að það hefur verið unnið að þessu en málið hefur gengið ansi hægt fyrir sig. Menn hafa beðið lengi eftir því að nefnd sem var skipuð skilaði niðurstöðu, nú þegar þessi niðurstaða liggur fyrir finnst mönnum heldur súrt að ekki skuli tekið á málinu í framhaldinu," segir Gísli.