HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um kyrrsetningu fasteignar í eigu Guðmundar Franklín Jónssonar, verðbréfasala í New York. Kyrrsetning var gerð að kröfu Lífeyrissjóðs Austurlands.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um kyrrsetningu fasteignar í eigu Guðmundar Franklín Jónssonar, verðbréfasala í New York. Kyrrsetning var gerð að kröfu Lífeyrissjóðs Austurlands.

Kröfur lífeyrissjóðsins byggðust á því að árið 1999 hafi sjóðurinn gefið út skuldabréf til 10 ára að andvirði tæplega 88 milljóna króna sem Guðmundur sé skuldari að. Skuldabréfin hafi verið tryggð með handveði í Handsali hf. sem síðar hafi verið breytt í Burnham International á Íslandi hf. Guðmundur átti 40% hlut í Burnham og var stjórnarformaður.

Haustið 2001 afturkallaði fjármálaeftirlitið starfsleyfi Burnhams og var félagið í kjölfarið tekið til opinberra skipta. Lífeyrissjóður Austurlands gjaldfelldi bréfin og sendi Guðmundi greiðsluáskorun í desember og óskaði jafnframt eftir því að fasteignin yrði kyrrsett, enda tæki birting á áskoruninni mánuð. Af hálfu Guðmundar var því m.a. haldið fram að sjóðnum hafi verið óheimilt að gjaldfella bréfin og af þeim sökum ætti að fella niður kyrrsetningaraðgerð sýslumanns. Á það féllst Logi Guðbrandsson, héraðsdómari, ekki og staðfesti aðgerðina. Lögmaður lífeyrissjóðsins var Hulda Rós Rúriksdóttir hdl. en Guðjón Ármann Jónsson hdl. var til varnar.