KAUPENDUR að 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum ætla að reiða fram 60% af kaupverðinu, 7,14 milljarða króna og greiða þar með fyrir 27,48% hlutafjár í bankanum, í vikunni.

KAUPENDUR að 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum ætla að reiða fram 60% af kaupverðinu, 7,14 milljarða króna og greiða þar með fyrir 27,48% hlutafjár í bankanum, í vikunni. Þeir nýta sér því ekki 30 daga greiðslufrest frá birtingu niðurstaðna Fjármálaeftirlitsins, en það samþykkti kaupin í gær.

Með því að greiða fyrir hlutinn í vikunni hljóta kaupendurnir, eða S-hópurinn svokallaði, sem samanstendur af Eglu hf., Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Samvinnulífeyrissjóðnum og Vátryggingafélagi Íslands, þau atkvæði sem honum fylgja á aðalfundi bankans á laugardaginn.

Fyrsta verkefni að styrkja starfsreglur bankans

Ólafur Ólafsson, talsmaður kaupendanna og stjórnarformaður Eglu hf., segir að eitt af fyrstu verkefnum fulltrúa hópsins í bankaráði Búnaðarbanka verði að beita sér fyrir því að starfsreglur bankans verði styrktar, með það fyrir augum að takmarka hættu á hagsmunaárekstrum. "Þetta er í samræmi við niðurstöður Fjármálaeftirlitsins," segir hann. Hann segir að í dag verði skilað inn tillögum að fulltrúum í bankaráði, en vill ekki tjá sig um hvaða einstaklingar skipi þann lista.

Samkvæmt kaupsamningi S-hópsins við íslenska ríkið, sem undirritaður var 16. janúar, skulu 27,48% hlutafjár í bankanum afhent í kjölfar undirritunar kaupsamnings, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. 18,32% skulu afhent eigi síðar en 20. desember 2003.

Málefnalegar athugasemdir

Í fréttatilkynningu frá Eglu hf. segir að í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins komi fram málefnalegar athugasemdir, sem kaupendahópurinn hafi ákveðið að samþykkja fyrir sitt leyti. Meðal annars setur eftirlitið það skilyrði að kaupendur skuldbindi sig til að tilkynna því með nægjanlegum fyrirvara um tímasetningu fullra aðilaskipta að hinum seldu hlutum í bankanum. Einnig að allur hinn keypti eignarhlutur verði falinn einu eignarhaldsfélagi, komi til þess að hinn virki eignarhlutur fari upp fyrir þriðjung af heildarhlutafé bankans.

"Jafnframt skuldbinda hluthafar Eglu hf. sig til þess að viðhalda a.m.k. 30% eiginfjárhlutfalli í félaginu, sem og sinna viðvarandi upplýsingaskyldu til Fjármálaeftirlitsins. Sama ákvæði gildir um upplýsingaskyldu Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, en Vátryggingafélag Íslands hf. og Samvinnulífeyrissjóðurinn sæta þegar eftirliti Fjármálaeftirlits," segir í tilkynningunni frá Eglu.

Sáttir við athugasemdirnar

Ólafur segir að kaupendur séu sáttir við athugasemdir Fjármálaeftirlitsins. "Þær eru mjög almenns eðlis og faglegar. Þær snúa að því að styrkja innri vinnureglur bankans og við munum beita okkur fyrir því," segir hann. Ólafur segir að ekkert í athugasemdunum komi hópnum á óvart eða komi sér illa fyrir hann.