Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff ásamt ungversku forsetahjónunum Ferenc og Dalma Mádl, heilsa gestum í heiðurskvöldverði forseta Ungverjalands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff ásamt ungversku forsetahjónunum Ferenc og Dalma Mádl, heilsa gestum í heiðurskvöldverði forseta Ungverjalands.
"ÞÓTT saga Ungverja og Íslendinga að fornu og nýju sé á margan hátt ólík varðveitir hún samt merkilegar hliðstæður sem endurspegla sameiginlegar evrópskar rætur, hliðstæður sem eru okkur hugleiknar þegar við í upphafi nýrrar aldar erum orðnir...

"ÞÓTT saga Ungverja og Íslendinga að fornu og nýju sé á margan hátt ólík varðveitir hún samt merkilegar hliðstæður sem endurspegla sameiginlegar evrópskar rætur, hliðstæður sem eru okkur hugleiknar þegar við í upphafi nýrrar aldar erum orðnir bandamenn á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og munum í sameiningu leitast við að færa Evrópu farsæld og framfarir á komandi tímum," sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, við hátíðarkvöldverð forseta Ungverjalands í fyrstu opinberu heimsókn sinni til landsins. Þessi orð gefa tóninn að þeim umræðum sem áttu sér stað á milli íslensku sendinefndarinnar sem er í för með Ólafi Ragnari og þeim aðilum sem fundað var með í gær á fyrsta degi heimsóknarinnar.

"Fundir sem við höfum átt hafa verið mjög gagnlegir og árangursríkir," sagði Ólafur Ragnar við Morgunblaðið í gærkvöldi en hann fundaði þá m.a. með forseta landsins og forsætisráðherra. Á fundunum var m.a. rætt um stöðu mála í Írak, Evrópusambandið og NATO auk þess sem löndin er bæði hafa yfir jarðhita að ráða geta miðlað af reynslu sinni við nýtingu hans hvort til annars. Þá gafst tækifæri til að kynna hugbúnað íslenska fyrirtækisins GoPro Landsteina en búnaðurinn miðar að því að auka upplýsingaflæði og er notaður nú þegar af sveitarstjórnum, ráðuneytum og opinberum aðilum á Íslandi sem og á öðrum Norðurlöndum, í Skotlandi og Eistlandi. Telur Ólafur að viðræður við fulltrúa ráðuneyta og stofnana um hugbúnaðinn hafa verið árangursríkar. Þá lýstu forseti og forsætisráðherra yfir ríkum vilja til að nýta hugbúnaðinn. "Þeir gera sér grein fyrir því að ef Ungverjar eiga að geta nýtt sér aðild að Evrópusambandinu og geta styrkt stöðu sína í alþjóðlegri samkeppni þurfa þeir að upplýsingavæða stjórnsýsluna mjög hratt."

NATO verði ekki vettvangur átaka

Ólafur telur heimsóknina almennt hafa skilað árangri fyrir viðskiptahagsmuni Íslendinga í Ungverjalandi og einnig fyrir aukin tengsl landanna á alþjóðavettvangi.

"Það var mjög fróðlegt að eiga viðræður við æðstu menn þessa lands um framtíð Atlantshafsbandalagsins og tengsl Evrópu við Bandaríkin og hvernig við Íslendingar leggjum áherslu á það að bandalagið verði ekki vettvangur átaka milli ríkja því það mundi ganga þvert á tilgang bandalagsins. Það var mjög merkilegt að heyra þá útskýra það að sú hugsun væri í samræmi við ætlun Ungverja því það hefði ekki verið tilgangur þeirra með aðild að bandalaginu að þurfa að velja milli valdablokka."

Þá ræddi Ólafur um stöðu mála í Írak við forsætisráðherra landsins. "Það var mjög fróðlegt að heyra sjónarmið hans. Ungverjar ætla sér ekki að verða aðilar að stríði. Þótt að þeir leyfðu flug yfir landið yrði Ungverjaland ekki aðili að átökunum og yrði ekki knúið til þess að taka formlega afstöðu með deiluaðilum."

Nýting jarðvarma

Í för með forsetanum eru fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur og Enex hf og var á fundum með ýmsum aðilum í gær rætt um samstarf ríkjanna um nýtingu jarðvarma. "Íslendingar hafa aflað sér víðtækrar reynslu á því sviði og Ungverjar hafa mikinn jarðhita en hafa nýtt hann á einhæfari hátt. Ég tel að niðurstaða þessara viðræðna verði að það muni fara fram víðtækar viðræður milli stjórnvalda í Ungverjalandi og íslensku orkufyrirtækjanna um hvernig hægt verði að koma á árangursríku samstarfi varðandi nýtingu jarðhitans. Á fundinum með forsætisráðherranum kom fram eindreginn vilji til þess að skoða þetta gaumgæfilega." Ólafur sagði einnig hafa komið fram að Íslendingar hefðu e.t.v. vanrækt möguleika á nýtingu jarðhitans til heilsuþjónustu. "Það getur orðið ríkuleg tekjulind. Ungverskir sérfræðingar hafa gefið Náttúrulækningafélaginu í Hveragerði og Reykjavíkurborg ýmis góð ráð í þessum efnum. Ungverjar hafa þróað mikla baðmenningu sem er þeim umtalsverð tekjulind. Við munum á sama hátt og við ræðum við þá um tæknilega nýtingu jarðhitans reyna að leggja grundvöll að því að þeir haldi áfram að gefa okkur góð ráð."

Búdapest. Morgunblaðið