Davíð Oddsson forsætisráðherra
Davíð Oddsson forsætisráðherra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra lýsa yfir stuðningi við yfirlýsingar George W.

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra lýsa yfir stuðningi við yfirlýsingar George W. Bush Bandaríkjaforseta, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og Jose Maria Aznar forsætisráðherra Spánar, eftir fund þeirra um Íraksdeiluna á Azoreyjum á sunnudag. Að loknum fundi leiðtoganna gaf Bandaríkjaforseti Sameinuðu þjóðunum sólarhringsfrest til að ákveða hvort þær styddu stríð á hendur Saddam Hussein Íraksforseta undir stjórn Bandaríkjamanna.

"Það er augljóst að tíminn er að renna út," segir Davíð. "Enn má þó kannski vona að ekki verði stríð með því að Íraksstjórn sjái að sér. Því miður virðist Saddam Hussein ekki eiga mjög mikinn tíma eftir. Ef hann þráast enn við er ljóst að hann þarf að taka afleiðingunum eins og sagði í ályktun Öryggisráðs SÞ, sem samþykkt var með 15 samhljóða atkvæðum. Ef það gerist, er augljóst að hann hefur brugðist ályktuninni og er nauðbeygður að horfast í augu við afleiðingarnar og allir vissu hverjar þær yrðu.Við teljum að Azoreyjayfirlýsingarnar, bæði um stöðuna eins og hún er í dag, og nauðsyn þess að þjóðir heims standi saman um þessar aðgerðir, og um uppbyggingu í Írak eftir þessar aðgerðir, séu þýðingarmiklar."

Mikill stuðningur við Atlantshafstengslin

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra tók ennfremur undir yfirlýsingarnar að loknum fundi leiðtoganna.

"Ég held að fundurinn á Azoreyjum hafi á margan hátt verið merkilegur. Þeir [George W. Bush, Tony Blair og Jose Maria Aznar] lýsa yfir miklum stuðningi við Atlantshafstengslin sem eru okkur Íslendingum lífsnauðsynleg og við hljótum að taka undir þá yfirlýsingu," segir Halldór. "Það er jafnframt tekið fram mikilvægi þess að ná niðurstöðu í Miðausturlöndum, milli Ísraels og Palestínu, sem ég tel skipta miklu máli. Þá er ítrekað að Saddam Hussein verði að afvopnast í samræmi við ályktun 1441, þannig að mér finnst niðurstöður þessa fundar vera með þeim hætti að við hljótum að taka undir þær."

Halldór sagði yfirlýsingu Bandaríkjaforseta um "stund sannleikans" ekki vera neina yfirlýsingu um stríð. "Það má segja að þetta sé yfirlýsing um það að nú sé tími diplómatískra leiða að verða liðinn. Síðan þessi fundur átti sér stað hafa menn hætt að leita þeirrar lausnar að ný ályktun verði samþykkt hjá SÞ. Ég harma það og leyni ekki þeirri skoðun minni að mikilvægt hefði verið að gefa sér lengri tíma. Ég tel hins vegar að land eins og Frakkland hafi gengið mjög langt í að tala um neitunarvald, áður en fullreynt væri að samstaða gæti náðst. Það er afskaplega mikilvægt fyrir allan heiminn og ekki síst Atlantshafstengslin, að ríki haldi sem mest saman á þessari örlagastundu. Eins og málið stendur núna er það ekki síst í höndum Saddam Hussein hvernig fer. Ég hafði vonast til að sú stund rynni ekki upp, en núna getum við reiknað með hverju sem er."