Alan Shearer, fyrirliði Newcastle og fyrrverandi fyrirliði Englands, hefur fagnað mörgum sigrum og mörkum með Newcastle að undanförnu.
Alan Shearer, fyrirliði Newcastle og fyrrverandi fyrirliði Englands, hefur fagnað mörgum sigrum og mörkum með Newcastle að undanförnu.
ALAN Shearer, fyrirliði Newcastle, sagði eftir að hafa skorað gegn Charlton í úrvalsdeildinni á laugardaginn við blaðið Observer: "Ég færi ekki rétt með ef ég segði að ég saknaði ekki þess að leika fyrir Englands hönd. Mér finnst að ég gæti enn staðið mig vel í ensku landsliðstreyjunni, er reyndar handviss um það," sagði Shearer.

Ummæli Shearers vöktu gríðarlega athygli í knattspyrnuheiminum en í gær sló framherjinn skæði á allan vafa í þessu sambandi. Shearer sendi frá sér fréttatilkynningu og greindi þar frá að dagar hans með enska landsliðinu væru taldir.

"Eftir að hafa íhugað málið vel og vandlega og þá aðallega með eiginkonu minni, fjölskyldu og nánum vinum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég óska ekki eftir því að verða valinn í enska landsliðið. Ég þakka þeim fjölmörgum sem hafa farið lofsamlegum orðum um mig og ég vill óska landsliðinu góðs gengis í komandi verkefnum," sagði meðal annars í fréttatilkynningunni sem Shearer sendi frá sér.

Shearer hætti með landsliðinu eftir Evrópukeppnina árið 2000 og vildi eftir það einbeita sér að því að spila með Newcastle. Það hefur hann gert með frábærum árangri og er enn einn hættulegasti framherji ensku úrvalsdeildarinnar. Shearer, sem er 32 ára gamall, hefur skoraði 24 mörk á leiktíðinni en í þeim 63 leikjum sem hann klæddist ensku landsliðstreyjunni skoraði hann 30 mörk.

Sven Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, hefur ekki farið dult með áhuga sinn á að fá Shearer í lið sitt og fylgdist með honum skora bæði mörkin gegn Inter í meistaradeild Evrópu í síðustu viku. "Ég ber mikla virðingu fyrir Shearer sem er frábær knattspyrnumaður. Ef hann mun einhvern tíma gefa kost á sér á ný, mun ég skoða þann möguleika gaumgæfilega," sagði Eriksson við Sunday Times fyrir skömmu.