Halldór Sigfússon lék vel og setti sex mörk.
Halldór Sigfússon lék vel og setti sex mörk.
HALLDÓR Sigfússon, fyrrverandi leikmaður KA-liðsins í handknattleik, skoraði 6 mörk og lék einn sinn besta leik fyrir Friesenheim þegar liðið sigraði Melsungen, 21:20, í suðurriðli þýsku 2. deildarinnar í handknattleik um helgina.

HALLDÓR Sigfússon, fyrrverandi leikmaður KA-liðsins í handknattleik, skoraði 6 mörk og lék einn sinn besta leik fyrir Friesenheim þegar liðið sigraði Melsungen, 21:20, í suðurriðli þýsku 2. deildarinnar í handknattleik um helgina.

"Þetta var geysilega mikilvægur sigur og við höldum þar með enn í smávon um að ná öðru sætinu í riðlinum. Halldór var virkilega góður og var kannski heilt yfir okkar besti maður í leiknum," sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Friesenheim, í samtali við Morgunblaðið.

Friesenheim er í þriðja sæti riðilsins með 33 stig, tíu stigum á eftir Düsseldorf og 14 á eftir toppliði Kronau/Östringen, en lærisveinar Atla eiga þrjá leiki til góða.

"Við eigum eftir að mæta Düsseldorf á heimavelli og Düsseldorf á einnig eftir að leika við Kronau, en það er ekki öll von úti enn um að ná öðru sætinu. Við eigum tíu leiki eftir og megum varla við því að missa mörg stig út úr þeim leikjum til að eiga möguleika á öðru sætinu," sagði Atli. Liðin sem verða í öðru sæti í suður- og norðurriðli eigast við í tveimur leikjum og sigurvegarinn í þeim leikjum mætir liðinu sem hafnar í þriðja neðsta sæti Bundesligunnar um laust sæti í deildinni.

Atli og Halldór eru samningsbundnir Frisenheim til júní á næsta ári.