Manhattanmærin Lopez fellur fyrir stjórnmálamanninum Fiennes.
Manhattanmærin Lopez fellur fyrir stjórnmálamanninum Fiennes.
Leikstjórn: Wayne Wang. Handrit: Kevin Wade. Aðalhlutverk: Jennifer Lopez, Ralph Fiennes, Tyler Posey, Natasha Richardson, Marrissa Matrone, Stanley Tucci, Bob Hoskins. Lengd: 105 mín. Bandaríkin. Columbia Pictures, 2002.

MANHATTANMÆR er dæmigerð Hollywood-afurð, skemmtileg rómantísk gamanmynd sem stenst takmarkaða nærskoðun, en er gerð af fólki sem kann til verka þegar kemur að því að búa til góða afþreyingu. Það er leikstjórinn Wayne Wang sem stýrir skipinu, sá hefur átt betri daga með kvikmyndum á borð við Reyk (Smoke), Blá í framan (Blue in the Face) og jafnvel Leik hlæjandi láns (The Joy Luck Club), og þó svo að Manhattanmær sé fremur metnaðarlítil afþreyingarkvikmynd, skín þar í gegn ákveðin vandvirkni sem Wang hefur til að bera. Sagan sem lagt er upp með í þessari rómantísku gamanmynd er dæmigerð Öskubuskusaga, sem færð er inn í nútímalegt og (ef til vill til þess að bæta fyrir notkunina á þessu útjaskaða prinsessuminni) pólitískt rétthugsandi samhengi.

Aðalsöguhetjan er Marisa Ventura (Jennifer Lopez), herbergisþerna á glæsihóteli á Manhattan í New York sem leggur sig fram í starfi sínu, en nær þó rétt að framfleyta sér og 10 ára gömlum syni sínum, en þau búa í lítilli íbúð í Bronx-hverfinu. Þegar hún bregður sér í óleyfi í rándýr tískuföt af einum hótelgestanna, verður hún einfaldlega að þeirri prinsessu sem hún er undir niðri og prinsinn fellur fyrir henni. Umræddur prins er hin góðlegi og myndarlegi Christopher Marshall (Ralph Fiennes), þingframbjóðandi Rebúblikanaflokksins, sem hefur komið sér upp bækistöðvum fyrir kosningabaráttu sína í hótelinu. Sá er að feta í fótspor föður síns með því að fara út í pólitík en undir niðri þráir hann ævintýrin í lífinu, og fellur því fyrir Marisu sem hann telur vera efnaða framakonu með dularfulla fortíð.

Við tekur ferli sem kallast á við Öskuævintýrið á margan hátt, Marisa fær t.d. lánuð prinsessuföt til að fara á ballið með prinsinum í gegnum góðu hjálparkokkana sem vinna með henni á glæsihótelinu, og þarf iðulega að rjúka burt áður en prinsinn fær nokkuð að vita um fátæklegan bakgrunn hennar. Í þjóðfélagslegu samhengi eru nútímaöskubuskan og prinsinn algjörar andstæður, Christopher er hvítur karlmaður sem tilheyrir ráðandi stétt samfélagsins, og kemur úr íhaldsamri fjölskyldu. Marisa er hins vegar kona af minnihlutauppruna (frá rómönsku Ameríku) og tilheyrir hinni stritandi lágstétt. Unnið er með þessar andstæður á skemmtilegan hátt í myndinni og lögð er talsverð alúð við að byggja upp persónur og gæða lífi þann heim sem ævintýrið gerist í. Hinir ómótstæðilega sjarmerandi leikarar, Jennifer Lopez og Ralph Fiennes, eru vel valin í aðalhlutverkin, þó svo að hvorugt sýni gríðarleg tilþrif í hlutverkum sínum, séu fyrst og fremst sæt og elskuleg meðan aukaleikarar á borð við Stanley Tucci, Bob Hoskins og Natasha Richardson, sjá um fjörið.

Manhattanmær er haganlega smíðuð rómantísk gamanmynd, sem er auðvitað fyrst og fremst sígilt ævintýri (sem slagar út í hið banala á köflum), en tekst að bæta þar við slatta af sjarma og hefja sig upp yfir það að vera berstrípuð prinsessusaga.

Heiða Jóhannsdóttir