[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
GAMAN er að vera krakki á myndbandaleigunum þessa vikuna því út koma þrjár myndir fyrir yngstu kynslóðina. Um er að ræða barna- og fjölskyldumyndirnar Lilo og Stitch , Sleðahunda ( Snow Dogs ) og Múmínálfana - Sumar í Múmíndal .

GAMAN er að vera krakki á myndbandaleigunum þessa vikuna því út koma þrjár myndir fyrir yngstu kynslóðina. Um er að ræða barna- og fjölskyldumyndirnar Lilo og Stitch, Sleðahunda (Snow Dogs) og Múmínálfana - Sumar í Múmíndal. Þetta er fjórða myndin um Múmínálfana sívinsælu en Múmínálfarnir og Lilo og Stitch eru báðar teiknimyndir og hefur sú síðarnefnda notið mikilla vinsælda.

Þess má geta að Lilo og Stitch er tilnefnd til Óskarsverðlauna í ár sem besta teiknimyndin og er gefin út hér á landi bæði með íslensku og ensku tali á myndbandi og mynddiski. Myndin fjallar um Lilo, sem er fimm ára stúlka frá Hawaii, og hundinn hennar Stitch en saman lenda þau í ótrúlegum ævintýrum. Það ætti ekki að koma á óvart í ljósi þess að Stitch er í raun ekki hundur og er á flótta undan óvinum sínum í geimnum.

Sleðahundarnir er kvikmynd frá Walt Disney líkt og Lilo og Stitch. Átta sleðahundar eru stjörnur myndarinnar og fara á kostum en í mannlegu deildinni fara Cuba Gooding jr. og James Coburn með helstu hlutverk.

Svo má ekki gleyma að hinn 20. mars hefst útgáfa á níundu þáttaröðinni af einum vinsælasta gamanþætti síðustu ára, Vinum (Friends). Um er að ræða þrjár spólur og inniheldur hver spóla fjóra þætti.

Af vinsældalista síðustu viku er það helst að segja að spennumyndin Táknin (Signs) í leikstjórn M. Night Shyamalan með Mel Gibson í aðalhlutverki fór beint á toppinn. Úrvalið var þó nóg fyrir þá sem hafa ekki taugarnar til að horfa á yfirnáttúrulega atburði því Winona Ryder og Adam Sandler grínast saman í Hr. Deeds (Mr. Deeds), sem er ný á lista í fjórða sæti.