"Frelsi í kynlífi er nefnilega eitt og vændi annað."

FYRIR skömmu var viðtal við spænskan lögfræðing í helgarblaði ABC á Spáni þar sem hún sagði frá starfi sínu. Það felst í því að fara út í skemmtigarðinn Casa del Campo í Madrid á hverjum degi og bjóða vændiskonum sem þar starfa hjálp við að losna úr vítahring vændis og til að losna undan kvölurum sínum, hórkörlum og melludólgum. Vændiskonurnar eru flestar útlendingar og vilja komast aftur heim til sín. Þær héldu margar að þær hefðu verið ráðnar til að starfa á hóteli á Spáni, en það var öðru nær. Með hverju árinu sem líður fækkar innfæddum vændiskonum á Spáni og í þeirra stað nýta melludólgar sér neyð kvenna frá Rómönsku Ameríku, Afríku og Austur-Evrópu. Sumar vændiskonurnar fá ekki einu sinni lök til að sofa við, heldur er þeim úthlutað pappír úr rúllum eins og notaður er á læknastofum. Komið er fram við þær sem skepnur en ekki manneskjur.

Viðtalið vakti athygli mína vegna þess að lögfræðingurinn sagði að viðskiptavinir vændisins hefðu gerbreyst undanfarin ár. Áður fyrr voru viðskiptavinir vændis á Spáni ungir þurfandi karlar sem máttu ekki lifa kynlífi fyrr en í helgri hjónasæng vegna þess að þröngsýnt þjóðfélag leyfði ekki annað. Í dag geta ólofaðir karlmenn (með lágmarkskynþokka) lifað kynlífi á jafnréttisgrundvelli kæri þeir sig um það. Þannig ætti grundvöllur fyrir vændi að vera brostinn. Sú er greinilega ekki raunin. Lögfræðingurinn sagði vert að skoða þá sem keyptu vændi. Hún sagði að sífellt væri algengara að alls kyns öfuguggar keyptu sér þjónustu vændiskvenna og með skelfilegum afleiðingum. Ber vændiskonum í Casa de Campo saman um að mun oftar séu þær beðnar um að stunda afbrigðilegt kynlíf en áður og þær verða æ oftar fyrir líkamsmeiðingum.

Viljum við sjá þessa þróun á Íslandi? Fyrir tíu árum hefði ekki hvarflað að okkur að þurfa að setja lög um vændi, enda trúðum við því að það væri ekki til staðar á Íslandi. Yfir þjóðina hefur klámvæðingin síðan fengið að flæða svo til hömlulaust og við sem mótmælum þykjum forpokuð og allt er gert til að gera þá sem ekki samþykkja klámið tortryggilega. Vegna þess að vændisvæðing á Íslandi var ekki viðurkennd hefur gengið erfiðlega að sporna við henni og hafa viðbrögð yfirvalda verið með eindæmum hægfara. Almenningur verður sjálfur að sjá til þess að vernda börnin sín meðal annars með því að kaupa ekki DV með öllu því klámi sem fyllir smáauglýsingarnar.

Það sem fær mig til að lyfta penna er að nú síðast var tillaga Kolbrúnar Halldórsdóttur, alþingiskonu Vinstri grænna, um að banna kaup á vændi kolfelld á Alþingi. Ef marka má atkvæðagreiðslu í þingsal finnst einungis níu þingmönnum saknæmt að kaupa vændi. Ég leyfi mér þó að efast um að sú sé raunin heldur hafi pólitískir flokkadrættir enn einu sinni komið í veg fyrir að unnið sé að almannaheill. Andstaða við vændisvæðingu er ekki spurning um það hvort við erum hægri eða vinstri sinnuð heldur hvort við viljum vera siðmenntuð eða ekki. Erlendis hefur það sýnt sig að því losaralegri sem löggjöf um vændi er, því óhugnanlegra verður mansalið og niðurlæging vændiskvennanna. Reglurnar eru eins og í barnauppeldi, ef allt er leyft eru engin bönd. Alltaf er reynt að sveigja þann lagaramma sem settur er og því þrengri sem hann er varðandi vændi, því betra.

Frelsi í kynlífi er nefnilega eitt og vændi annað. Að kaupa vændi er að nýta sér neyð og fátækt manneskju sem getur ekki borið hönd yfir höfuð sér og er í vændi vegna þess að hún er neydd til þess. Klámvæðingin hefur alið á alls kyns afbrigðilegheitum og skilgreint þau sem hluta af "eðlilegu" kynlífi karla. Er eðlilegt að heilbrigðir karlmenn nýti sér neyð annarrar manneskju? Er ekki með sömu rökum hægt að réttlæta þrælahald og annað ofbeldi á minnimáttar? Nú skora ég á alþingismenn úr hvaða flokki sem þeir eru að banna auglýsingar á klámi í dagblöðum landsins (rétt eins og auglýsingar á tóbaki eru ekki leyfðar) og taka höndum saman um að koma með aðra tillögu á Alþingi þar sem kaup á vændi er skilgreint sem saknæmt og refsivert athæfi.

Eftir Margréti Jónsdóttur

Höfundur er lektor í spænsku við Háskóla Íslands.