"Hvenær fer Davíð að ræða málefnin í stað þess að slá út í aðra sálma?"

FYRIR skömmu streymdu gjafirnar frá ríkisstjórnarflokkunum til þjóðarinnar. Þannig var reynt að kaupa kjósendur, einkum karla til lags við stjórnarflokkana. Kosningafléttan misheppnaðist hins vegar vegna þess hversu vanhugsuð hún var. Við fögnum hins vegar fjármununum sem koma sér vel. Synd að kosningar séu ekki nema á fjögurra ára fresti því vegagerð á að vera daglegt brauð, ekki bara í tilefni kosninga.

Næsta stef sama kosningabrags hefst á orðunum úlfur, úlfur. Þar er reynt að hræða kjósendur til fylgis með því að spá fyrir um framtíðina, þ.e. úrslit kosninganna í vor, rangtúlka fortíðina (vinstristjórnir eru vondar því þær hafa aldrei enst út kjörtímabil) og vara síðan kjósendur við öllu saman með hræðsluáróðri. Er þetta ekki veruleikafirring á háu stigi? Í fyrsta lagi liggja úrslit kosninganna í vor ekki fyrir. Í öðru lagi ákvarðast árangur vinstristjórna af ýmsu öðru en hversu lengi þær endast, þar á meðal þeim brýnu verkefnum sem þær þrátt fyrir allt hrinda í framkvæmd. Út frá hræðsluáróðri Davíðs mætti álykta sem svo að því lengur sem núverandi stjórn situr því betri verði hún. Er einhver sem trúir þessum áróðri? Gamalt máltæki segir hið gagnstæða, lengi getur vont versnað. Því miður virðist það eiga við í tilviki núverandi ríkisstjórnar. Ég vil minna á að mikilvægasta skrefið út úr óðaverðbólgu áttunda áratugarins var stigið af ríkisstjórn Alþýðuflokks og Framsóknar í samstarfi við verkalýðshreyfinguna eftir áratuga óstjórn fyrri ríkisstjórna, þar á meðal ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins.

Ég er handviss um að kjósendur munu sjá í gegnum þennan áróður engu síður en tilefni kosningagjafanna nú nýverið. Það er aftur á móti áhyggjuefni að ef þetta stef kosningasálms Davíðs virkar ekki þá mun hann hugsanlega grípa til þess ráðs að berja kjósendur leiftursnöggt í höfuðið. Þar með hefði Davíðskórinn sungið þrjú meginstef foringjans, þ.e. að kaupa til lags, að hræða til fylgis og að berja til hlýðni. Reyndar hefur Davíð sjálfur farið í hlutverk píslarvottsins í fjölmiðlum að undanförnu og kunnað vel þeirri göngu sinni. Hvað næst, ágætu landsmenn? Hvenær og hvernig endar þessi grátbroslega, húmorslausa og málefnasnauða kosningakrossferð á hendur íslenskum kjósendum sem voga sér að draga lærdóm af verkum ríkisstjórnar hans og hugsa sjálfstætt? Hvenær fer Davíð að ræða málefnin í stað þess að slá út í aðra sálma? Ég lýsi eftir upplýstri umræðu um áhrif skattalegra breytinga á ólíka tekjuhópa og flutning fjármagns frá einum hópi til annars, svo bara eitthvað sé nefnt? Ágætu fjölmiðlar, látum ekki meðaltalsraus og geðvonsku fjármálaráðherrans hindra þetta verðuga verkefni rannsóknarblaðamennskunnar.

Sannleikurinn er sá að núverandi ríkissjórn undir forystu sjálfstæðisflokksins hefur framkvæmt mestu eignatilfærslu Íslandssögunnar frá hinum almenna launamanni til þeirra sem eiga eða ráða verðmætum þjóðarinnar, þ.e. auðvaldsins. Og það sem verra er, stjórnvöld geta ekki lengur gætt hagsmuna almennings og haft stjórn á atburðarásinni. Meginástæðan er leiðarljós núverandi stjórnvalda, nýfrjálshyggjan, sem leyfir ekki sjónarmið félagshyggjunnar að nauðsynlegt sé að jafna leikinn með skýrum leikreglum. Er ekki mál að linni í vor?

Eftir Hermann Óskarsson

Höfundur er formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.