"Þegar öllu er á botninn hvolft skal hvergi slakað á í öryggiskröfum svo verja megi hið fágæta heilbrigðisástand, jafnt í fiskeldi sem hjá villtum laxastofnum."

VIÐ þinglok skaut upp hvassri umræðu vegna stjórnarfrumvarps landbúnaðarráðherra sem leggur til nauðsynlegar lagabreytingar vegna ESB-tilskipunar nr. 91/67/EBE sem íslensk stjórnvöld hafa dregið að innleiða. Mikils misskilnings hefur gætt í túlkun markmiða frumvarpsins, ekki síst sökum stóryrtra forkólfa stangveiðimanna sem hafa lagt sig alla fram við að snúa út úr og sá tortryggni. Formaður "Verndarsjóðs villtra laxastofna" er samur við sig og gerir afar ómaklega árás í garð landbúnaðarráðherra í grein sinni í Mbl 12. mars sl. Ef einhver á hrós skilið fyrir fölskvalausa alúð og trygglyndi í garð dýra, hvort heldur þau eru alin undir umsjá manna eða frjáls í sinni villtu náttúru, þá er það nefndur ráðherra. Ég á orðið bágt með að skilja hvaða öfl knýja áfram áðurnefnda forsvarsmenn, en gífuryrðin dæma sig sjálf.

Með frumvarpinu er ráðherra eingöngu að sinna sínum embættisskyldum, trúr sinni samvisku og studdur heilshugar af þeim fagaðilum sem að málaflokknum koma. Með undirritun EES-samningsins skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að innleiða ofangreinda tilskipun í íslenskan rétt og átti hún að taka gildi í júlí 1994. Efndir láta því miður enn á sér standa. Íslandi átti að veita undanþágur, sem áttu svo að falla endanlega úr gildi 30. júní 2002, en þær hafa alla tíð verið gagnslausar sökum þess að tilskipunin hefur aldrei verið innleidd. Þá er það alrangt að ætlunin hafi verið að hraða frumvarpinu í gegnum þingið í "skjóli nætur", hér er ekkert sem þolir ekki dagsljósið. Frumvarpið var tilbúið snemma vors 2002, en sökum sveitarstjórnarkosninga vannst ekki tími til kynningar. Það var svo fyrst kynnt í landbúnaðarnefnd við upphaf haustþings en mætti þá strax óverðskuldaðri andstöðu einstakra þingmanna, enda ákveðnir aðilar búnir að "kippa í spotta".

Og hvað skyldi svo þessi hættulega tilskipun ganga út á? Titill hennar er svo hljóðandi: "Um skilyrði á sviði dýraheilbrigðis vegna inn- og útflutnings eldisdýra, afurða þeirra og flutningstækja". Tilgangurinn er skýr, en þar segir: "...að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma hjá eldisdýrum í tengslum við inn- og útflutning lifandi eldisdýra, eldisafurða og flutningstækja, sem geta borið með sér smit." Er hægt að tala skýrar? Það skal undirstrikað að innleiðing nefndrar tilskipunar hefur ekki í för með sér tilslökun á þeim ströngu sjúkdómavörnum sem verið hafa í gildi og íslensk yfirvöld hafa áfram fulla heimild til að setja skilyrði um einangrun dýra í ákveðinn tíma með tilheyrandi sýnatökum og sótthreinsun frárennslis. Þá hafa yfirvöld ávallt unnið eftir þeirri reglu að einungis skuli flutt til landsins sótthreinsuð hrogn, í þau örfáu skipti sem heimild hefur verið gefin, eftir nákvæma skoðun og rannsóknir. Á þessu verður engin breyting og ég get fullyrt að aldrei verður heimilaður innflutningur á lifandi seiðum laxfiska. Innanlands þarf að flytja seiði á milli stöðva, oft í sérútbúnum bátum, og þess vegna er nauðsynlegt að um þau mál gildi strangar leikreglur.

Embætti yfirdýralæknis, í samvinnu við Tilraunastöðina á Keldum, hefur unnið skipulega að sjúkdómavörnum í fiskeldi á landsvísu allt frá árinu 1985. Reglubundnar sýnatökur eru framkvæmdar ár hvert og umtalsvert gagnasafn sýnir svo ekki verður um villst hver staða fisksjúkdóma er hér á landi. Í stuttu máli er þessi staða einsdæmi á heimsvísu og fyrir það höfum við hlotið síaukna eftirtekt erlendis frá og útflutningur laxahrogna og lúðuseiða hefur vaxið hröfum skrefum undanfarin ár. Fiskeldisþjóðir leggja æ ríkari áherslu á eftirlit með smitsjúkdómum í fiskum og krafan er sú að einungis sé verslað með efnivið sem er sannanlega laus við smit. Með þessa óskastöðu í farteskinu hafa fisksjúkdómayfirvöld sótt um viðbótartryggingu gagnvart þeim sjúkdómum sem við metum alvarlegasta, en tilskipunin gefur einmitt færi á slíku ef eftirlitið uppfyllir ákvæði hennar. Tilgangur umsóknarinnar er að fá formlega viðurkenningu ESB þess efnis að íslensk yfirvöld sinni öflugu eftirlitsstarfi og að landið sé sannanlega laust við alvarlega smitsjúkdóma. Slík trygging kveður á um sérstakar heimildir stjórnvalda til að verjast sjúkdómum með öflugri hætti en ella og takmarka innflutning. Miðað við stöðu okkar í dag telja fulltrúar bæði ESB og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) ekki vandkvæði á að Ísland hljóti slíka tryggingu gagnvart þeim smitsjúkdómum sem tilskipunin gefur heimild til. Umsókn Íslands, sem send var til Brussel vorið 1999, er nú á lokastigi afgreiðslu en öðlast ekki gildi fyrr en eftir innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE í íslenskan rétt. ESA hefur fylgst náið með framgangi mála og af því tilefni sent fjögur áminningarbréf á undanförnum mánuðum. Ísland er nú í erfiðri stöðu í þessu máli. Engin formleg viðurkenning á eftirliti og sjúkdómastöðu fæst útgefin, engin afgreiðsla á viðbótartryggingum, útflutningshagsmunir eru í húfi og yfir vofir málsókn ESA vegna samningsbrots á EES-samningnum.

Þegar öllu er á botninn hvolft skal hvergi slakað á í öryggiskröfum svo verja megi hið fágæta heilbrigðisástand, jafnt í fiskeldi sem hjá villtum laxastofnum, en dýrmætt gæti reynst að öðlast formlegar viðurkenningar ESB á eftirlitskerfi og stöðu heilbrigðis hér á landi.

Eftir Gísla Jónsson

Höfundur er dýralæknir fisksjúkdóma hjá embætti yfirdýralæknis.