EKKI liggur nákvæmlega fyrir hversu margir Íslendingar eru staddir í nágrenni við hugsanleg átakasvæði í Miðausturlöndum.

EKKI liggur nákvæmlega fyrir hversu margir Íslendingar eru staddir í nágrenni við hugsanleg átakasvæði í Miðausturlöndum. Íslenska utanríkisráðuneytið vinnur nú að því að taka saman lista yfir Íslendinga á svæðinu en að sögn Önnu Katrínar Vilhjálmsdóttur, sendiráðsritara í utanríkisráðuneytinu, er listinn alls ekki orðinn tæmandi og verður það ekki fyrr en utanríkisráðuneytinu hafa borist upplýsingar frá fólki sjálfu eða ættingjum þess. Þegar litið sé fram hjá íslensku starfsfólki Atlanta geti verið nokkrir tugir Íslendinga á svæðinu en þeir geti líka verið mun færri. "Við getum ekki svarað þessu með öruggum hætti fyrr en við förum að fá upplýsingar um þetta fólk, annað hvort héðan eða erlendis frá," segir Anna. Utanríkisráðuneytið hvetur íslenska ríkisborgara, sem staddir eru í Miðausturlöndum, til þess að veita ráðuneytinu upplýsingar um heimilisfang, símanúmer, fjölskylduhagi og gefa jafnframt upp nafn og símanúmer tengiliðs á Íslandi: postur@utn.stjr.is.

Í sérstökum leiðbeiningum utanríkisráðuneytisins til Íslendinga í Miðausturlöndum segir að mögulegt sé að framvinda mála leiði til þess að erfitt verði að yfirgefa viðkomandi svæði flugleiðis og er fólki því ráðlagt að bíða ekki um of með nauðsynlegan undirbúning. Sé fólk í óvissu um öryggi sitt er því ráðlagt að yfirgefa svæðið sem fyrst.

Utanríkisráðuneytið hefur gert ráðstafanir til þess að íslenskir ríkisborgarar geti snúið sér til sendiráða tiltekinna erlendra ríkja í Miðausturlöndum og mun viðkomandi sendiráð eða ræðisskrifstofa veita ráðleggingar um hvernig best er að búa sig undir brottför af svæðinu.

"Sú staða getur komið upp að fulltrúar vestrænna ríkja á tilteknu svæði telji sameiginlegan brottflutning ríkisborgara sinna nauðsynlegan. Því er mikilvægt að íslenskir ríkisborgarar séu í sambandi við viðkomandi sendiráð eða ræðisskrifstofu. Þá getur svo farið að lofthelgi tiltekinna ríkja Miðausturlanda verði lokað og einungis mögulegt að fara burt landleiðina. Því hafa norræn sendiráð á þessu svæði ráðlagt ríkisborgurum sínum að tryggja sér aðgang að bíl ásamt nægilegu eldsneyti. Íslenskum ríkisborgurum er jafnframt ráðlagt að tryggja sér nokkurn gjaldeyri í ljósi þess óvissuástands sem skapast hefur," segir í leiðbeiningum ráðuneytisins.