"...kaupmáttur hefur aukist samfellt í níu ár, samanlagt um 33%."

BARÁTTUAÐFERÐ Samfylkingarinnar fyrir komandi alþingiskosningar er eftirtektarverð. Dylgjur og gróusögur úr alræmdri Borgarnesræðu talsmanns flokksins hafa yfirgnæft alla stjórnmálaumræðu og þegar þessar sögur þykja ekki duga er farið rangt með skattamál og því haldið fram að skattalækkanir séu í raun skattahækkanir! Það sem talsmaður flokksins og aðrir forystumenn hans virðast ekki átta sig á er að með því að beita slíkum baráttuaðferðum eru þeir að afhjúpa málefnafátækt flokksins. Kjósendum verður ljóst að forysta flokksins treystir sér ekki í eðlilegar umræður um stjórnmál, allra síst um störf ríkisstjórnarinnar. Rétt er að vekja athygli á nokkrum atriðum sem Samfylkingin vill greinilega draga athyglina frá með áróðri sínum.

Hreinar skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um nær helming sem hlutfall af landsframleiðslu á síðustu átta árum, eða úr 34% í 18%. Ávinningurinn af niðurgreiðslu skulda kemur meðal annars fram í því að hrein vaxtagjöld ríkisins hafa lækkað úr 8 milljörðum króna árið 1998 í 2 milljarða króna í ár. Til viðbótar niðurgreiðslu skulda hafa yfir fimmtíu milljarðar króna verið greiddir inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins á undanförnum árum til að búa í haginn fyrir framtíðina.

Tekjuskattur á einstaklinga hefur verið lækkaður á undanförnum árum og hefur hlutur ríkisins í staðgreiðslu einstaklinga ekki verið lægri frá því staðgreiðslukerfið var tekið upp fyrir 15 árum, en hann er nú 25,75%. Hinn hluti staðgreiðslunnar, útsvarið, hefur farið hækkandi og rennur til sveitarfélaganna. Dregið hefur verið úr álögum á bifreiðar og bensín á kjörtímabilinu og eignarskattur hefur verið lækkaður um meira en helming. Allt kemur þetta einstaklingum til góða enda er raunin sú að kaupmáttur hefur hækkað samfellt í níu ár, samanlagt um 33%. Þetta er ótrúleg bylting á lífsgæðum almennings, en kaupmáttur mælir hve mikið launþegar fá í eigin vasa eftir að hafa greitt skatta. Hér má bæta því við að sérstaklega ánægjulegt er að kjör þeirra lægst launuðu hafa batnað mest og hefur kaupmáttaraukning þeirra verið nær tvöfalt meiri en meðalaukningin.

Þá má minna á að tekjuskattar á fyrirtæki hafa verið lækkaðir markvisst á síðustu 12 árum og eru nú komnir niður í 18%. Þetta hefur orðið til þess að efla atvinnulífið sem er öllum til góðs. Loks má benda á að setning gegnsærra og skilvirkra reglna um starfsemi atvinnulífsins og einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur stuðlað mjög að eflingu atvinnulífsins og umhverfi þess er nú allt annað en það var fyrir rúmum áratug.

Þessum árangri og fjölmörgu öðru af sama tagi er nauðsynlegt að halda til haga nú þegar stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn vill láta kosningarnar snúast um allt annað en málefni.

Eftir Tinnu Traustadóttur

Höfundur er lyfjafræðingur og ritari SUS.