ÞRIÐJI leikur Hamars og Grindvíkinga í átta liða úrslitum úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Grindavík í gærkvöldi varð aldrei að neinum spennuleik.

ÞRIÐJI leikur Hamars og Grindvíkinga í átta liða úrslitum úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Grindavík í gærkvöldi varð aldrei að neinum spennuleik. Heimamenn náðu snemma forustu og sigruðu sannfærandi 97:73, eftir að hafa verið 12 stigum yfir í hálfleik, 55:43. Grindvíkingar eru þar með komnir í undanúrslitin ásamt Njarðvík en í kvöld fæst úr því skorið hvaða tvö lið til viðbótar leika í undanúrslitum, þá mætast Keflavík og ÍR annars vegar og Haukar og Tindastóll hins vegar í oddaleikjum í Keflavík og í Hafnarfirði.

Það var vel mætt í Röstina í gærkveldi og Hvergerðingar sem heimamenn létu vel í sér heyra. Það mátti þó öllum ljóst vera sem voru á leiknum að heimamenn ætluðu að vinna þennan leik og voru gríðarlega einbeittir í öllum sínum aðgerðum frá fyrstu sekúndu. Eftir fjórar mínútur var staðan orðin 18:7 og heimamenn líklegir til að kaffæra gestina. Gestirnir náðu þó að vinna sig inn í leikinn en voru pressaðir hátt á vellinum frá fyrstu mínútu og lengstum í leiknum. Þá vakti það athygli að við hverja körfu Grindvíkinga voru mikil fagnaðarlæti á bekk heimamanna sem spiluðu þennan leik út í gegn af mikilli einbeitingu til síðustu mínútu. Fjörugum fyrsta leikhluta lauk þannig að heimamenn voru með forustu 31:20. Svipaður munur var allan annan leikhluta og Hamarsmenn áttu ekki í teljandi vandræðum með að halda í við heimamenn þannig að þeir misstu þá ekki langt frá sér. Í hálfleik var staðan 55:43 og svipuð staða og í síðasta leik þegar þessi tvö lið mættust í Röstinni á fimmtudagskvöld. Nú voru það heimamenn sem bættu í og sigu enn meira fram úr en í síðasta leik syðra þegar gestirnir náðu að jafna í þriðja leikhluta. Áður en varði var staðan orðin 70:50 og ljóst að heimamenn voru að vinna leikinn. Hamarsmenn neituðu að gefast upp og héldu áfram að berjast, enda dyggilega studdir af áhorfendum sínum sem fylgdu þeim, en máttu þola það að missa tvo leikmenn útaf með fimm villur fyrir miðjan síðasta leikhluta. Smátt og smátt var ljóst hvernig leikurinn myndi enda því heimamenn spiluðu leikinn til enda af krafti og einbeitingu sem aldrei fyrr og lönduðu öruggum sigri, 97:73.

Bestur í liði gestanna var Marvin Valdimarsson en aðrir náðu ekki að skara framúr. Hjá heimamönnum var liðsheildin sterk og nú stigu menn fram í Grindavíkurliðinu en liðsheildin var gríðarlega sterk. Helgi Jónas Guðfinnsson, Páll Axel Vilbergsson og Guðmundur Bragason áttu allir mjög góðan leik í annars jafngóðu liði heimamanna. Darrel Lewis var á rólegu nótunum þetta kvöldið og gerði 11 af sínum nítján stigum í síðasta leikhlutanum en spilaði félaga sína oft vel uppi.

Garðar Páll Vignisson skrifar