"VIÐ lögðum okkur fram í þessum leik eins og í öllum þessum þremur leikjum svo að fyrrverandi fallkandídatar gerðu deildarmeisturunum virkilega erfitt fyrir," sagði Pétur Ingvarsson þjálfari og leikmaður Hamars eftir leikinn í Grindavík í...
"VIÐ lögðum okkur fram í þessum leik eins og í öllum þessum þremur leikjum svo að fyrrverandi fallkandídatar gerðu deildarmeisturunum virkilega erfitt fyrir," sagði Pétur Ingvarsson þjálfari og leikmaður Hamars eftir leikinn í Grindavík í gærkvöldi. "Ef við lítum í heild á þessa þrjá leiki má sjá að Grindvíkingar þurftu virkilega að hafa fyrir sigrinum og voru eflaust á einhverjum tímapunkti orðnir hræddir. Meira getur lið sem var lengi við fall varla gert. Við ætluðum að stöðva þá í vörninni en taka okkar tíma í sóknina og velja góð skotfæri, okkar áætlanir voru ekki flóknari en það. Helsta vopn Grindvíkinga var því að halda uppi hraða gegn liði sem reynir að hægja á leiknum og þeim tókst að stjórna hraðanum góðan hluta af leiknum. Á meðan hraðinn er svona mikill erum við frekar líklegir til að tapa. Þegar þeir ná síðan góðu forskoti kemur í okkar hlut að elta og það hleypir upp hraðanum, sem hentar þeim mun betur og þeir kunna til hlítar," bætti Pétur við. Hann var ánægður með lokasprett sinna manna á mótinu en ekki í heildina. "Við fórum í þessa keppni án þess að eiga innstæðu fyrir henni og það var því engin pressa á okkur. Ég get verið sáttur við síðasta hlutann í mótinu og alveg fyrst en í heildina var veturinn frekar köflóttur. Við fórum svo sem í fjögurra liða úrslit í bikar og velgdum deildarmeisturunum verulega undir uggum í úrslitakeppninni svo að þegar farið verður að skoða úrslit eftir tíu ár - ef einhver gerir það - þá man enginn eftir vetrinum í heild. Við hljótum að hafa lært eitthvað í vetur. Hamar hefur verið fjögur ár í úrvalsdeildinni og jafnmörg ár í úrslitakeppninni en núna er eflaust ákveðið skref að vinna aftur leik í úrslitakeppninni á móti erfiðum mótherja. Næsta skref hlýtur að vera að komast í næstu umferð."