LIECHTENSTEIN hefur óskað eftir aðstoð frá nágrönnum sínum í Sviss og Austurríki vegna væntanlegs landsleiks í knattspyrnu á milli Liechtenstein og Englendinga í undankeppni EM sem fram fer 29. mars.

LIECHTENSTEIN hefur óskað eftir aðstoð frá nágrönnum sínum í Sviss og Austurríki vegna væntanlegs landsleiks í knattspyrnu á milli Liechtenstein og Englendinga í undankeppni EM sem fram fer 29. mars. Heimamenn óttast mjög stuðningsmenn enska landsliðsins og telja sig ekki vera í stakk búna til þess að taka á móti þeim. Viðureignin fer fram í Vaduz, höfuðstað Liechtenstein. Aðeins eru 70 lögreglumenn starfandi í þessu smáríki í Ölpunum og í Vaduz eru aðeins tveir fangaklefar sem menn reikna ekki með að verði nóg til þess að hýsa stuðningsmenn enska landsliðsins sem eiga það til að ganga full hratt um gleðinnar dyr, a.m.k. sumir hverjir.

Þá tekur völlurinn aðeins 3.500 áhorfendur sem er hvergi nægilegt til þess að taka á móti öllum þeim sem vilja sjá leikinn. Reiknað er með að Englendingar eigi eftir að ferðast þúsundum saman til Liechtenstein vegna leiksins. Hann verður ekki sýndur á risaskjám í Vaduz þannig að búist er við að margir áhorfendur reyni að troðast inn á völlinn miðalausir og þá er ljóst að 70 lögreglumenn hafa lítið í þúsundir Englendinga að gera. Einnig er reiknað með að þær sárafáu krár sem eru í borginni verði fullar út úr dyrum fyrir leikinn, á meðan hann stendur yfir og að honum loknum, enda fer hann fram á laugardegi. Yfirvöld í Liechtenstein hafa því óskað eftir að nágrannalöndin komi þeim til aðstoðar við að halda uppi röð og reglu meðan Englendingar verða í landinu Komi hjálp ekki til er óttast að allt fari á versta veg.